Selfyssingum skellt í Úlfarsárdal

Selfyssingar lutu lægra haldi gegn Fram í Olísdeild karla í kvöld, 33-26. Leikurinn var opnunarleikur Íslandsmótsins og jafnframt fyrsti leikurinn sem leikinn er í nýrri stórglæsilegri aðstöðu Framara í Úlfarsárdalnum.

Leikurinn fór fjörlega af stað, eitthvað um mistök og liðin skiptust á að leiða jafnan leik. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður tók Fram hins vegar forystuna, Selfyssingar fóru ekki vel með boltann í sókninni og heimamenn voru duglegir að refsa með hraðaupplaupum, staðan í hálfleik 17-11.

Í upphafi seinni hálfleiks gerði Selfoss atlögu að því að koma sér inn í leikinn. Það gekk ágætlega, munurinn var kominn niður í 3 mörk eftir fimm mínútur, en lengra komust gestirnir ekki að sinni. Fram fékk markvörslu, mark og brottvísun á gestina og juku aftur forskotið. Þetta bil náðu Selfyssingar ekki að brúa og tap niðurstaðan í fyrsta leik haustsins, 33-26.

Næsti leikur Selfoss í Olísdeild karla verður á Selfossi á fimmtudaginn eftir viku þegar þeir taka á móti Gróttu. Fyrsti leikur í Olísdeild kvenna verður svo laugardaginn eftir það, en það verður stórleikur HK og Selfoss í Kórnum.

 

Mörk Selfoss: Ísak Gústafsson 6, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Atli Ævar Ingólfsson 5, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Hannes Höskuldsson 2, Richard Sæþór Sigurðsson 1, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Sölvi Svavarsson 1, Karolis Stropus 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 7 (25%), Jón Þórarinn Þorsteinsson 4 (27%).