Sigur á grasinu

Mynd: Hrefna Morthens
Mynd: Hrefna Morthens

Selfoss tók á móti Tindastól í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna síðasta þriðjudag. Leikurinn endaði með 3-1 sigri Selfyssinga. Fyrsta mark leiksins skoraði Tindastól en heimakonur settu svo þrjú mörk í kjölfarið, en þar var Katla María með tvö og Eva Lind með eitt. Með sigrinum fór Selfoss upp í sjöunda sæti.

Leikurinn fór hægt af stað fyrir heimakonur sem voru lentar marki undir eftir aðeins þrettán mínútna leik. Markið kom eftir hornspyrnu  á nærstöngina, leikmaður Tindastóls gerði vel í að rífa sig lausa frá varnarmanni og stangaði boltann í netið.

Selfoss gekk illa að skapa sér marktækifæri fyrst um sinn, en héldu vel í boltann og ógnuðu gestunum alltaf. Það var svo á 36. mínútu leiksins sem Katla María jafnaði metin fyrir Selfoss. Tindastóll hafði þá reynt margsinnis að hreinsa boltann úr vítateig sínum eftir hornspyrnu. En boltinn fór ekki langt, Katla fær hann í fæturna rétt fyrir utan teig og tekur skot, sem leit í fyrstu út fyrir að vera sending. Boltinn skoppar hægt og rólega framhjá öllum í teignum og lekur svo loksins yfir línuna, 1-1.

Selfyssingar héldu sókn sinni áfram næstu mínútur og virtust mjög líklegar til að taka forystuna. Það gerðist svo rétt fyrir hálfleikshlé þegar Eva Lind Elíasdóttir skallaði boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf Barbáru Sólar á vinstri kantinum.

Síðari hálfleikur hófst svo af krafti þegar Katla María setti sitt annað mark á 50. mínútu eftir óbeina aukaspyrnu. Barbára Sól tók spyrnuna, lagði boltann út á Kötlu sem þrumaði í netið af stuttu færi.

Selfoss komið 3-1 yfir, sem varð lokaniðurstaða leiksins, Tindastóll reyndi í fyrstu að sækja fram og minnka muninn en Selfyssingar áttu svör við öllum þeirra aðgerðum. Síðustu mínútur leiksins voru algjörlega tíðindalausar og Selfoss sigldi sínum fyrsta sigri örugglega heim. 

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Keflavík mánudaginn 22.maí