Sigur á móti FH í spennandi leik

Hanna_Selfoss_Fram
Hanna_Selfoss_Fram

Meistaraflokkur kvenna er í baráttu um sæti í úrslitum og náðu þær í mikilvæg stig í Hafnafjörðinn um helgina. Þá unnu þær FH á útivelli í Olís deildinni, 23-25, eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik, 9-10. Okkar stelpur komu vel stemmdar inn í seinni hálfleikinn og voru betri aðilinn seinni þrjátíu mínúturnar. Þær náði góðri forystu og komust t.d í 14-17 og svo í 17-21 þegar um tíu mínútur voru til loka leiks. Þá slökuðu Selfyssingar aðeins á og hleyptu smá spennu í leikinn. FH náði að saxa á forskotið og minnka muninn í tvö mörk á þeim kafla en lengra komust þær þó ekki og Selfoss sigraði með tveimur mörkum, 23-25. Glæsilegur sigur en eftir þennan leik er Selfoss í 7. sæti deildarinnar með 11 stig.

Markahæst í liði Selfoss var Hrafnhildur Hanna með 8 mörk. Thelma Sif og Carmen Palamariu skoruðu 4 mörk hvor, Perla Ruth skoraði þrjú, Elena Birgisdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Hildur Öder skoruðu allar tvö mörk.

Það er stutt í næsta leik hjá stelpunum en þær taka á móti Stjörnunni þriðjudaginn 27. janúar og hefst leikurinn klukkan 19:30. Selfyssingar eru hvattir til að fjölmenna á pallana og hvetja stelpurnar í baráttunni.

Á mynd: Hrafnhildur Hanna. Myndina tók Inga Heiða Heimisdóttir