Sigur í fyrsta leik meistaraflokks kvenna

Stelpurnar okkar spiluðu sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna í 20 ár síðasta laugardag. Andstæðingurinn var Afturelding og var því um nýliðaslag að ræða þar sem þær eru líka að taka þátt í efstu deild eftir mjög langan tíma. Leikurinn byrjaði eðlilega með látum, lífi og fjöri enda mikil eftirvænting og stress hjá leikmönnum beggja liða. Smám saman brast stíflan og buðu bæði lið uppá skemmtileg tilþrif og jafnan leik. Okkar stelpur höfðu þó alltaf frumkvæðið og leiddu með 2-3 mörkum alveg þar til 5 mín. voru eftir af hálfleiknum en þá juku þær forskotið í 4 mörk. Hálfleikstölur 13-9 fyrir Selfoss. Strax eftir 5 mín. í síðari hálfleik var staðan orðin 16-9 og loks 19-10 eftir 10 mín. leik. Það má því segja að stelpurnar hafi lagt grunninn að sigrinum á þessum 5 mín. í lok fyrri hálfleiks og fyrstu 10 í síðari hálflleik. Eftir þetta jafnaðist leikurinn aftur og lokatölur urðu 26-16 fyrir okkar stelpur.

Frábært að hefja tímabilið á því að komast á stigatöfluna og það verður ekki tekið af þeim þrátt fyrir að þeirra bíði erfiður vetur. Stuðningur áhorfenda var góður og mættu á 300 manns í húsið sem er vonandi það sem koma skal. Ekki veitir af þegar betri lið deildarinnar koma í heimsókn. 

Hrafnhildur Hanna skoraði mest eða 9 mörk. 
Kristrún kom næst með 8 mörk, Thelma Sif skoraði 5, Tinna Soffía 3 og Thelma Björk bætti við 1 marki. Í markinu varði Áslaug Ýr 12 skot (50%) og Ásdís 1 (20%). Allir leikmenn liðsins fengu að koma inná og var bæði samheldni og barátta stelpnanna allra til fyrirmyndar.  Þær munu svo sannarlega þurfa á því að halda næsta laugardag þegar Haukar koma í heimsókn. Hvetjum alla til að mæta þá og styðja þær til dáða.