Stórsigur á KA

Guðjón Baldur skoraði 6 mörk í leiknum
Guðjón Baldur skoraði 6 mörk í leiknum

Strákarnir unnu frábæran sigur gegn KA í Set höllinni í kvöld, 34-24. Leikurinn var þriðji heimaleikur strákanna í vetur í Olísdeildinni og má með sanni segja að strákarnir hafi mætt vel gíraðir í leikinn þrátt fyrir ferðalag á Ísafjörð í byrjun vikunnar.

Leikurinn fór fjörlega af stað með sirkusmarki frá KA en þar með má segja að partýið hafi verið búið hjá KA og Selfyssingar gengu á lagið og skoruðu hvert markið á fætur öðru. Selfyssingar komust í 6-1 og þá tóku KA menn leikhlé og reyndu að endurskipuleggja sinn leik en það fór ekki betur en svo að Selfyssingar héldu áfram og voru komnir í 15-8 þegar KA tók sitt annað leikhlé í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var svo 21-12 og segja má að Selfoss hafi leikið á alls oddi með frábærum varnarleik og markvörslu. Í kjölfarið komu hraðaupphlaup sem Selfyssingar nýttu vel.

Seinni hálfleikur var svo nánast formsatriði þar sem strákarnir héldu forskotinu allan hálfleikinn og gátu rúllað liðinu ágætlega. Allir skiluðu sínu hlutverki vel í dag og var aðdáunarvert að sjá baráttuandann og stemninguna í liðinu í dag. Leikurinn endaði með sigri Selfyssinga 34-24 og tvö góð stig í hús í jafnri baráttu í deildinni.

Strákarnir eru þá komnir með 7 stig og sitja í 4 sæti þegar þetta er ritað. Næsti leikur Selfoss í Olísdeild karla verður gegn ÍR í nýja húsinu þeirra í Skógarselinu á sunnudaginn í næstu viku. Stelpurnar taka svo á móti Fram á morgun laugardag klukkan 16:00 í Set höllinni. Fjölmennum og styðjum við okkar lið.

Mörk Selfoss: Guðjón Baldur Ómarsson 6, Sigurður Snær Sigurjónsson 6, Ísak Gústafsson 6, Einar Sverrisson 6, Atli Ævar Ingólfsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 2, Hannes Höskuldsson 2, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Sölvi Svavarsson 1, Karolis Stropus 1 og Guðmundur Hólmar Helgason 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 18 (49%), Jón Þórarinn Þorsteinsson 3 (38%).

Hér má nálgast umfjöllun Vísis um leikinn en þar má lesa viðtöl meðal annars við Þóri þjálfara og Guðmund Hólmar.
https://www.visir.is/g/20222327763d/umfjollun-og-vidtol-selfoss-ka-34-24-heimamenn-klarudu-daemid-i-fyrri-halfleik