Tap í hörku leik gegn Haukum

Um helgina tóku stelpurnar okkar á móti Haukum í N1 deild kvenna og varð það hörkuleikur. Selfoss byrjaði leikinn betur og komst í 4-2 en þá rönkuðu Haukastelpurnar við sér og breyttu stöðunni í 4-5. Eftir það hélst leikurinn mjög jafn og bæði lið að spila góða vörn og að fá góða markvörslu. Gestirnir náðu þó að skora úr nokkrum hraðaupphlaupum í lok hálfleiksins og staðan í hléinu var 9-12 fyrir Hauka. Selfoss byrjaði síðari hálfleikinn mjög vel og eftir aðeins 5 mín. spil var staðan orðin 12-13 og leikurinn orðinn jafn aftur. Jafnræði hélst með liðunum allt þar til 15 mín. voru eftir en þá breyttist staðan úr 15-17 í 16-21 fyrir gestina. Þá tók Sebastian 2 leikhlé á stuttum tíma og eftir það kom mikil barátta í Selfossliðið og unnu stelpurnar síðustu 10 mín. 5-2 en því miður var leikurinn ekki 5-10 mín. lengri en það hefði líklega dugað til sigurs. Ef undan er skilinn slæmur 5 mín. kafli í sókninni í síðari hálfleik þá spiluðu stelpurnar mjög vel og ljóst að mikið býr í þessu unga liði okkar. Varnarleikur, markvarsla, barátta og liðsheild einkennir liðið og þegar að sóknarleikurinn verður betri þá er liðið líklegt til að vinna svona leiki. Þá má ekki gleyma því að liðið spilaði án Hranfhildar Hönnu og því eru úrslitin mjög góð fyrir þetta unga lið okkar sem verður gaman að fylgjast með í vetur.

Carmen skoraði flest mörk eða 8 og á eftir henni kom Kristrún með 5, þá Þuríður með 3, Tinna 2 og loks þær Hildur, Kara og Thelma Sif með 1 hver. Þá varði Áslaug 16 skot og þar af 1 víti.

Frábær leikur hjá stelpunum sem við getum öll verið stolt af og í leiðinni þá hvetur heimasíðan ykkur til þess að koma á næsta heimaleik laugardaginn 13 október en þá koma FH stelpur í heimsókn. Þær eru með gott lið sem ætlar sér 5-6 sæti í deildinni og því verður mikil þörf á stuðningi áhorfenda.