Þjálfararáðstefna Árborgar haldin í upphafi árs 2016

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Þjálfararáðstefna Árborgar verður haldin í þriðja sinn dagana 15. og 16. janúar. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Sveitarfélagsins Árborgar og Umf. Selfoss og í góðu samstarfi við HSK og menntavísindasvið Háskóla Íslands á Laugarvatni. Mikil ánægja hefur verið meðal þátttakenda á fyrri ráðstefnum sem hvetur okkur áfram til dáða.

Þema ráðstefnunnar í ár er markmið, skipulag og vellíðan. Markmiðið með ráðstefnunni eru meðal annars að auka þekkingu, kunnáttu og efla símenntun þjálfara sem og að opna á samskipti á milli þjálfara í mismunandi íþróttum og á mismunandi svæðum.

Á ráðstefnuna er boðið öllum þjálfurum sem starfa á sambandssvæði HSK og eru yfir 18 ára aldri. En rétt er að geta þess að ráðstefnan er öllum opin þó sérstök áhersla sé lögð að sunnlenska þjálfara.

Dagskrá föstudagsins miðar að því að skerpa á samstarfi og samvinnu við stofnanir og aðra aðila sem vinna með börnum og unglingum í sveitarfélögum. Meðal fyrirlesara á föstudeginum eru Ingólfur Sigurðsson, knattspyrnumaður og Hafdís Inga Hinriksdóttir, félagsráðgjafi og fyrrum afrekskona í handbolta.

Á laugardeginum er farið enn frekar í þjálfunartengd málefni með erindum frá fjölbreyttum hópi virtra fyrirlesara. Erindi flytja Fjóla Signý Hannesdóttir, landsliðskona í frjálsum íþróttum, Vésteinn Hafsteinsson, frjálsíþróttaþjálfari og Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur og lektor við Háskóla Íslands.

Undirbúningshópur ráðstefnunnar skorar á þjálfara á Suðurlandi og aðra áhugasama að taka þátt í ráðstefnunni.

Skráning sendist á umfs@umfs.is og lýkur fimmtudaginn 14. janúar.