Tveir Íslandsmeistaratitlar og tvenn silfurverðlaun

Toppárangur á Íslandsmótinu í júdó í aldursflokkum U17 og U20: 
- Egill Blöndal varð af gullinu þegar aðeins 3 sekúndur voru eftir af viðureigninni.

Íslandsmót ungmenna 15-19 ára, í flokkum U17 og U20, fór fram um síðustu helgi í sal Júdódeildar Ármanns í Reykjavík. Keppendur voru 49 frá öllum sterkustu félögum landsins og skiptust nokkuð jafnt í báða aldursflokka.

Að lokinni einstaklingskeppninni var keppt í sveitakeppni, en að þessu sinni voru eingöngu karlasveitir skráðar til leiks. Keppt er í fimm manna sveitum og þarf því lágmark þrjá keppendur til að manna sveit. Helst bar til tíðinda að sveit KA fékk samþykki mótherja sinna til að nota konu í karlasveit sinni til að hlaupa í skarðið í léttasta þyngdarflokknum og gerði það gæfumuninn því sveit KA stóð uppi sem sigurvegarai í U20 aldursflokkn-um en sveit JR sigraði í U17.

Tveir Íslandsmeistarar frá júdódeild Selfoss

Júdódeild Umf. Selfoss kom sterk inn og urðu þau Sturlaugur Eyjólfsson og Þórdís Böðvarsdóttir Íslandsmeistarar í sínum þyngdarflokkum eftir snarpar og skemmtilegar viðureignir. Gaman var að sjá Sturlaug aftur í keppni eftir nokkurt hlé. Mátti greinilega sjá að þar fór toppmaður.

Þórdís keppti við Astrid Stefánsdóttur frá KA. Hafði hún viðureignirnar í hendi sér strax frá byrjun og sigraði af nokkru öryggi.

Egill Blöndal sýndi og sannaði enn og aftur að hann er í fremstu röð íslenskra júdómanna þrátt fyrir ungan aldur. Hann varð þó í þetta skiptið að láta sér silfrið linda þegar hann tapaði í mest spennandi viðureign dagsins gegn Loga Haraldssyni, Júdófélagi Reykjavíkur, þegar aðeins 3 sekúndur voru eftir af viðureigninni. Egill hafði sýnt mikinn styrk og var með yfirhöndina í viðureigninni þegar hann tók mikinn sjens á síðustu sekundunum til þess að knýja fram sigur, en Loga tókst að sjá við Agli og vinna gullið.

Þá kepptu einnig Eyþór Óskarsson og Trostan Gunnarsson. Eyþór hefur verið frá keppni undanfarin 2 ár og sýndi ágæta takta og er ljóst að hann á mikið inni. Hann vann silfur í UD-90 flokki. Trostan var að keppa í annað skipti og stóð sig mjög vel miðað við stuttan keppnisferil.

-gs/ög

Á efri myndinni Er Sturlaugur Eyjólfsson til hægri. Og á neðri myndinni er Þórdís Böðvarsdóttir.