Tvö Íslandsmet í kastþraut Óla Guðmunds

Hin árlega kastþraut Óla Guðmunds. var haldin 6. september s.l. á Selfossvelli við ágætar aðstæður. Keppnisgreinar kastþrautarinnar voru sleggjukast, kringlukast, kúluvarp, spjótkast og lóðkast. Megin tilgangur þrautarinnar er að enda keppnistímabilið með stæl þar sem húmorinn og keppnisgleðin er allsráðandi. Þrautin er öllum opin og eru þátttakendur úr öllum geirum frjálsíþrótta, allt frá kösturum til langhlaupara. Keppt er í karla- og kvennaflokki. Þar sem þrautin var mynduð af RÚV í fyrra þá var erfitt að toppa það í ár en kastþrautin hefur engu að síður fest sig rækilega í sessi sem sést á því að met þátttaka var í henni að þessu sinni eða átján keppendur samtals frá sjö félögum, tólf karlar og átta konur. Mest hefur fjöldinn áður verið ellefu hjá körlunum en fjórir í kvennaflokknum.

 

Mikil og góð stemning ásamt léttleika einkenndi þessa kastþraut. Í karlakeppninni stóð keppnin um fyrsta sætið á milli Hilmars Arnar Jónssonar ÍR sem einungis er 16 ára gamall, Arnar Davíðssonar FH og Sindra Lárussonar ÍR. Svo fór að Hilmar Örn sigraði með 3514 stig, sem er sex stigum meira en sigurvegarinn í fyrra, Jón Bjarni Bragason náði, en hann gat ekki verið með í ár sökum meiðsla. Þess má geta að Hilmar setti Íslandsmet í 15 kg lóðkasti í 16-17 ára flokki er hann kastaði 15,25 metra. Annar varð Selfyssingurinn Örn Davíðsson sem keppir fyrir FH með 3487 stig, sem er bæting hjá honum og bronsið hreppti ungur og efnilegur ÍR ingur, Sindri Lárusson með 3309 stig, en Sindri setti Íslandsmet í 18-19 ára flokki í kúluvarpi þegar hann þeytti kúlunnu 16,27 m og sló þar með 33 ára gamalt met Selfyssingsins Óskars Reykdalssonar. Aðrir keppendur voru gestgjafinn Ólafur Guðmundsson sem varð fjórði, Ingólfur Guðjónsson ÍR í fimmta sæti, Magnús Björnsson Breiðabliki sjötti, Sölvi Guðmundsson Breiðabliki sjöundi, Dagur Fannar Magnússon, Selfossi áttundi, Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki níundi, Guðmundur Nikulásson Dímon tíundi, Styrmir Dan Steinunnarson Þór ellefti og Barði Páll Böðvarsson Selfossi tólfti. Þess má til gamans geta að stigamet karla í kastþrautinni er 3727 stig sem er í eigu Óðins Björns Þorsteinssonar Ólympíufara úr FH.

Hjá kvenfólkinu varði Anna Pálsdóttir frá Selfossi, sigurvegari þriggja síðustu ára, titilinn með 2789 stig sem er bæting um 109 stig. Hún fékk góða keppni frá Ágústu Tryggvadóttur Selfossi sem rakaði saman 2330 stigum, Eyrúnu Höllu Haraldsdóttur Selfossi sem fékk 2291 stig og Jóhönnu Herdísi Sævarsdóttur Laugdælum sem náði 2197. Í fimmta sæti varð svo Bryndís Eva Óskarsdóttir Selfossi, Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi sjötta, Halla María Magnúsdóttir, Selfossi sjöunda og Aðalheiður María Vigfúsdóttir Breiðabliki áttunda.

Starfsmenn mótsins voru Guðmundur Kr. Jónsson, Ingvar Garðarsson, Steinunn E. Þorsteinsdóttir, Markús Ívarsson, Rúnar Hjálmarsson og Guðrún Heiða Bjarnadóttir. Styrktaraðilar mótsins eru Bros-gjafaver Reykjavík og hjónin Guðmundur Kristinn Jónsson og Lára Ólafsdóttir. Er þessum aðilum öllum þakkað kærlega fyrir stuðninginn.

Ólafur Guðmundsson mótshaldari.

 Keppendur í kastþraut Óla Guðmunds. Sigurvegarar kastþrautarinnar Hilmar Örn Jónsson ÍR og Anna Pálsdóttir Selfossi.