Tvö jafntefli í hringferð Selfyssinga

Knatttspyrna - Meistaraflokkur karla á Austurlandi
Knatttspyrna - Meistaraflokkur karla á Austurlandi

Selfyssingar lögðu land undir fót í seinustu viku þegar þeir léku á útivelli gegn Þór frá Akureyri og liði Fjarðabyggðar í Inkasso-deildinni. Strákarnir dvöldu í góðu yfirlæti á Eiðum milli leikja auk þess að æfa á Egilsstöðum. Það er stutt í gleðina hjá strákunum og tóku þeir m.a. upp á því að stökkva í Eyvindará til að kæla sig í veðurblíðunni á Héraði.

Í fyrri leik ferðarinnar þriðjudaginn 16. ágúst gerðu Selfyssingar 1-1 jafntefli við Þór á Þórsvellinum. Heimamenn komust yfir í fyrri hálfleik en Arnór Ingi Gíslason jafnaði fyrir Selfoss með síðustu spyrnu leiksins eftir mikið klafs í vítateig Þórsara.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Selfyssingar voru ekki alveg eins kátir í leikslok eftir markalaust jafntefli í leik gegn Fjarðabyggð á Eskifirði föstudaginn 19. ágúst. Þrátt fyrir að hafa fengið mígrút marktækifæra og mikla yfirburði í leiknum vildi boltinn ekki í netið.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Að loknum 17 umferðum er liðið með 22 stig og færðist niður í 7. sæti deildarinnar en staðan í deildinni er æsispennandi nú þegar fimm leikjum er ólokið. Liðið tekur á móti toppliði Grindavíkur á JÁVERK-vellinum fimmtudaginn 25. ágúst klukkan 18:00.

---

Strákarnir stilltu sér upp á gömlu brúnni yfir Skjálfandafljót við Goðafoss.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Hafþór Sævarsson