Upphitun fyrir Selfoss - Grótta

Á föstudaginn 23. nóvember klukkan 19:30 fær Selfoss Gróttu í heimsókn í íþróttahúsið við Vallaskóla. Bæði lið þurfa nauðsynlega á sigri að halda og er von á hörku leik.

Grótta hefur verið að spila undir væntingumog einungis unnið 3 leiki og tapað 4. Sem þýðir að þeira sitja í 5. sæti með 6 stig. Liðið er þjálfað af landsliðsþjálfara kvenna Ágústi Jóhannssyni. Þeir eru að byggja upp ungt lið sem er að mestu leiti skipað ungum Gróttudrengjum. Jóhann Gísli Jóhannesson er atkvæðamestur þeirra með 34 mörk. Á eftir fylgja Aron Valur Jóhannsson og Þráinn Orri Jónsson með 24 mörk. Í markinu er svo Valsarinn Ingvar Kristinn Guðmundsson. Grótta þarf nauðsynlega að vinna þennan leik, ætli þeir sér að vera með í umspilsbaráttunni.

Gengi Gróttu á tímabilinu: T-T-T-S-S-T-S

Selfoss situr í 4. sæti með 10 stig. Deildin er þó það jöfn að það eru einungis 2 stig í efsta sætið. Liðið er hungrað í að komast aftur á beinu brautina eftir tap í seinasta leik. Einar Sverrisson hefur farið á kostum í Selfossliðinu hingað til með 41 mark og margar stoðsendingar. Mikið mun mæða á honum eftir að krossbandaslit Atla Kristinssonar var staðfest. Næstur í markaskorinu kemur Einar Pétur Pétursson, sem hefur verið gífurlega drjúgur í vinstra horninu með 34 mörk. Hörður Gunnar Bjarnarson, reyndasti leikmaður liðsins og fyrirliði, fylgir þar á eftir með 31 mark og er ávallt jafn mikilvægur. Unga stórskyttan okkar Matthías Örn Halldórsson er svo með 30 mörk og oft á tíðum frábæran varnarleik. Helgi og Sverrir eru svo staðráðnir í að sanna sig aftur, eftir frekar dapran seinasta leik.

Gengi Selfoss á tímabilinu: S-S-T-S-S-S-T

Liðin mættust á nesinu í fyrstu umferðinni, þar fór Selfoss með sigur af hólmi eftir mjög jafnan og hörkuspennandi leik 24-25. Seinast voru þessi lið saman í 1. deild árið 2009 . Þá voru liðin í hörku baráttu allt tímabilið um fyrsta sætið, sem Grótta náði á endanum, en Selfoss endaði í öðru sæti. Á því tímabili vann Selfoss fyrsta leikinn á nesinu 25-29. Næst mættust liðin á Selfoss þá hefndi Grótta fyrir tapið og vann 28-34. Liðin mættust svo í ógleymanlegum úrslitaleik 11. febrúar 2009. Þá var þetta orðinn hreinn úrslitaleikur og eftir mjög grófan, hraðan, og hreint frábæran handboltaleik. Þá vann Grótta 32-31 og tryggði sér sæti í N1 deildinni árið 2010. Það er von að sagan muni ekki endurtaka sig næstkomandi föstudag.

Heimasíðan hvetur fólk til að mæta á völlinn. Mætingin var ágæt í seinasta leik miðað við aðstæður, en við ætlum að gera betur. Mæta tímanlega og hvetjum liðið til sigurs