Vorfjarnám ÍSÍ hefst í febrúar

ISI-logo
ISI-logo

Vorfjarnám hins vinsæla náms ÍSÍ í þjálfaramenntun 1. 2. og 3. stigs hefst í febrúar. Fyrsta stig hefst mánudaginn 9. febrúar og annað og þriðja stig viku síðar eða mánudaginn 16. febrúar. Námið er svokallaður almennur hluti þekkingar íþróttaþjálfara og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Hinn hluta námsins sækja þjálfarar til viðkomandi sérsambanda eða sérnefnda ÍSÍ. Nám 1. stigs tekur átta vikur en nám á 2. og 3. stigi tekur fimm vikur. Allir sem lokið hafa grunnskólaprófi hafa rétt til þátttöku á 1. stigi.

Allt námið er fjarnám, það eru engar staðbundnar lotur. Þátttakendur geta því í raun verið hvar sem er svo fremi að þeir hafi tölvu og aðgang að nettengingu.

Skráning er á namskeid@isi.is og/eða í síma 514-4000 og þarf skráningu að vera lokið síðasta föstudag fyrir upphaf náms. Taka þarf fram fullt nafn, heimilisfang, kennitölu, netfang, símanúmer og að sjálfsögðu á hvaða stig verið er að skrá.

Nemendur skila verkefnum í hverri viku námsins og taka auk þess nokkur krossapróf. Þátttökugjald á 1. stig er kr. 25.000.- og eru þá öll námskeiðsgögn innifalin í verðinu. Þátttökugjald 2. stigs er kr. 23.000.- og 3. stigs kr. 18.000.- og nýtast námskeiðsgögnin frá 1. stigi áfram á þeim stigum auk þess sem ný bók um næringarfræði fylgir með á 2. stigi.

Námið veitir réttindi til íþróttaþjálfunar og jafnframt réttindi til frekara náms í íþróttaþjálfun. Fyrsta stig ÍSÍ jafngildir ÍÞF 1024 í framhaldsskólum og er það metið í báðar áttir. Allir þátttakendur sem ljúka námi fá send þjálfaraskírteini því til staðfestingar og inn á það skírteini eiga svo öll námskeið að fara, líka það nám sem sótt er til sérsambanda eða sérnefnda ÍSÍ.

Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, í síma 514-4000 eða 460-1467 og á vidar@isi.is.