Bryndís Embla Íslandsmeistari í spjótkasti
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram á Selfossvelli dagana 23.-24 ágúst. 19 iðkendur frjálsíþróttadeildar Selfoss náðu tilskyldum lágmörkum á mótið. Góð þátttaka var á mótinu og flottur árangur náðist í mörgum greinum. Bryndís Embla Einarsdóttir og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson náðu þeim frábæra árangri að verða Íslandsmeistarar þrátt fyrir ungan aldur og auk þess unnu keppendur frjálsíþróttadeildar Selfoss til fjögurra silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna.
Bryndís Embla Einarsdóttir kastaði spjótinu 44,75m og varð Íslandsmeistari. Árangur hennar er jafnframt nýtt HSK met í þremur flokkum, 16-17 ára, 18-19 ára og 20 - 22 ára en hún bætti eigin met. Hún bætti einnig eigið Selfossmet í fullorðinsflokki. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson vippaði sér yfir 1,93m í hástökki og vann sér inn Íslandsmeistaratitil og hann vann einnig til bronsverðlauna í kringlukasti er hann bætti sig og kastaði 42,46m. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson vann til silfurverðlauna í 800m hlaupi eftir mjög harða keppni en hann hljóp á tímanum 2:04,73 mín og Kristinn Þór Kristinsson hljóp 1500m á tímanum 4:01,81 mín og vann til silfurverðlauna. Örn Davíðsson vann til silfurverðlauna þegar hann kastaði spjótinu 60,27m og Anna Metta Óskarsdóttir stökk 11,55m í þrístökki og fékk silfurverðlaun að launum. Að lokum hljóp Hugrún Birna Hjaltadóttir 400m grindahlaup á tímanum 1:12,56 mín og Ísold Assa Guðmundsdóttir vippaði sér yfir 2,70m í stangarstökki og unnu þær báðar til bronsverðlauna.

Hjálmar Vilhelm Íslandsmeistari í hástökki karla

Örn Davíðsson vann til silfurverðlauna í spjótkasti

Þorvaldur Gauti í 800m hlaupi á MÍ