Guðmunda Brynja íþróttamaður HSK

Gumma efnilegust í Pepsi deild 2013
Gumma efnilegust í Pepsi deild 2013

Guðmunda Brynja Óladóttir var í dag útnefnd íþróttamaður Héraðssambandsins Skarphéðins árið 2013 á héraðsþingi HSK sem fram fór á Borg í Grímsnesi.

Árið var frábært hjá Guðmundu Brynju. Hún sinnti æfingum af miklum krafti og reglusemi á undirbúningstímabilinu þar sem hún lagði grunninn að frábæru tímabili hjá sér. Hún lét strax í upphafi móts til sín taka inni á vellinum og sýndi þar og sannaði að hún er í hópi efnilegustu og bestu knattspyrnukvenna á Íslandi. Guðmunda Brynja spilaði frábærlega í liði Selfoss í Pepsi deildinni 2013 og var þar lykilmaður. Hún átti mikinn þátt í því að liðið bætti árangur sinn frá 2012 töluvert en Selfoss varð í sjötta sæti Pepsi deildarinnar 2013.

Guðmunda Brynja spilaði 19 leiki í deildar og bikarkeppni. Hún var lykilmaður liðsins og markahæst en hún skoraði 11 mörk eða 58% af mörkum liðsins í sumar auk þess sem hún átti nokkrar stoðsendingar. Þess má einnig geta að hún var yngsti fyrirliði Pepsi deildarinnar 2013.

Á lokahófi KSÍ var Guðmunda Brynja valin efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar 2013 af þjálfurum og leikmönnum allra liða í efstu deild. Hún var einnig valinn leikmaður ársins á lokahófi Knattspyrnudeildar Selfoss. Í lok árs var hún útnefnd íþróttakona Árborgar á uppskeruhátíð Íþrótta- og menningarnefndar sveitarfélagsins.

Til gamans má geta að Guðmunda Brynja spilaði í tvær mínútur með 2. flokki síðasta sumar og skoraði eitt mark en þetta var lokaár hennar með 2. flokki og sannarlega flottar tvær kveðjumínútur.

Guðmunda Brynja hefur verið atkvæðamikil með unglingalandsliðum Íslands. Á síðasta ári æfði hún með tveimur landsliðum Íslands þ.e. U19 ára og A-landsliði Íslands.

Með U19 ára liðinu hefur hún spilaði 19 leiki og skorað fimm mörk. Guðmunda Brynja hefur farið í margar keppnisferðir erlendis með landsliðum Íslands og æft reglulega allt árið í Reykjavík. Hún var fastamaður í U17 ára liði Íslands árin á undan og á þar leikjamet, 19 leiki og 13 mörk.

Í nóvember 2013 skilaði frábær frammistaða Guðmundu Brynju árangri þegar hún fór með A-landsliði Íslands til leiks við Serbíu í undankeppni HM 2015. Guðmunda Brynja kom inn á í þeim leik og varð þar með fyrsti A-landsliðsmaður Selfoss sem tekur þátt í opinberu móti á vegum FIFA.

Guðmunda Brynja er einn af máttarstólpum Selfoss í meistaraflokki auk þess sem hún er mikil og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur deildarinnar. Guðmunda Brynja framlengdi samning sinn við Selfoss eftir sumarið og sýndi þar mikla tryggð við sitt félag en hún var eftirsótt af öðrum liðum, bæði hér heima og erlendis.

Guðmunda Brynja er nú stödd með A-landsliðinu á Algarve mótinu í Portúgal og gat því ekki veitt bikarnum viðtöku sjálf.

Aðrir Selfyssingar sem tilefndir í kjörinu voru:
Briddsmaðurinn Hrannar Erlingsson, Umf. Selfoss
Fimleikamaðurinn Eysteinn Máni Oddsson, Umf. Selfoss
Handknattleiksmaðurinn Einar Sverrisson, Umf. Selfoss
Júdómaðurinn Egill Blöndal, Umf. Selfoss
Sundmaðurinn Þórir Gauti Pálsson, Umf. Selfoss
Taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, Umf. Selfoss.

Við óskum þessum einstaklingum öllum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Nánar má lesa um 92. hérðasþing HSK á Sunnlenska.is.