Kári með persónuleg met í öllum greinum

Landsbankamót ÍRB var haldið í Reykjanesbæ 11-13. maí sl. Þarna var saman komið fremsta sundfólk landsins og var þetta eitt af síðustu mótum hérlendis þar sem sundmenn höfðu tök á að preyta sig á lágmörkum fyrir Ólympíuleikana og fleiri stór mót erlendis síðar á þessu ári. Alls tóku 14 félög þátt víðsvegar af landinu með fjöldann allan af keppendum.

Átta sundmenn tóku þátt frá sundeild Umf. Selfoss og stungu þau sér alls 31 sinnum í laugina. Þau voru, Benedikt Nökkvi Sigfússon og Eyþór Ás Þórisson báðir 11 ára, Hannes Höskuldsson 12 ára, Kári Valgeirsson, Baldur Þór Bjarnarson og Eydís Líf Þórisdóttir öll 14 ára, Ólöf Eir Hoffritz 16 ára og Gíslína Skúladóttir 17 ára. Kári Valgeirsson komst á verðlaunapall í öllum sínum greinum þrátt fyrir að hafa átt við meiðsli að stríða undanfarið. Hann var í 1. sæti í 50 m skriðsundi á tímanum 29,65 sek., 2. sæti í 100 m skriðsundi á tímanum 1:06,86 mín., 3. sæti í 200 m skriðsundi á tímanum 2:28,43 mín. og 3. sæti í 50 m flugsundi á tímanum 53,54 sek. Í leiðinni náði hann lágmarkinu í 200 m skriðsund inn á Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ) sem verður haldið í lok júní í Reykjanesbæ. Að auki tókst honum að slá persónuleg met í öllum þessum greinum. Frábær árangur hjá þessum metnaðarfulla dreng og óskum við honum til hamingju. Einnig var nokkuð um bætingar hjá öðrum úr liðinu en enginn annar náði þó á verðlaunapall í þetta skiptið.

rgj