Barbára Sól og Dagur Fannar íþróttafólk Umf. Selfoss 2020

Umf. Selfoss - Viðurkenningar á aðalfundi 2021
Umf. Selfoss - Viðurkenningar á aðalfundi 2021

Fyrir aðalfund Umf. Selfoss sem fór fram í fjarfundi fimmtudaginn 29. apríl var tilkynnt um val á íþróttafólki Umf. Selfoss fyrir árið 2020. Fyrir valinu urðu knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir og frjálsíþróttamaðurinn Dagur Fannar Einarsson.

Við sama tækifæri var Jóni Karli Jónssyni afhentur Björns Blöndals bikarinn fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins og taekwondodeild Umf. Selfoss var valin deild ársins fyrir metnaðarfullar heimaæfingar í heimsfaraldri.

Fram kom að rekstur félagsins er í miklu jafnvægi þó að starfið hafi verið fordæmalaust á seinasta ári. Mikið mæddi á stjórnum deilda allt árið 2020 og kom vel í ljós sá mikli mannauður sem félagið býr að þegar bregðast þurfti skjótt við ástandi sem enginn gat séð fyrir. Með samstilltu átaki og ábyrgri ákvarðanatöku innan stjórna tókst að halda starfsemi og þjónustu félagsins óskertri eftir því sem takmarkanir á samkomum leyfðu. Um leið tóku ábyrgir aðilar í stjórnum deilda strax í handbremsuna og brugðust við því gjörbreytta umhverfi sem fjármál deildanna horfðust í augu við.

Á fundinum varð ein breyting á framkvæmdastjórn þar sem Sigrún Hreiðarsdóttir gekk úr stjórn og var Hafsteinn Guðmundsson kjörinn í hennar stað.

---

Jón Karl og Dagur Fannar ásamt Ófeigi Á. Leifssyni formanni taekwondodeildar og Viktori S. Pálssyni formanni Umf. Selfoss.
Viktor og Barbára Sól.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Gissur