Eva María og Eric Máni íþróttafólk Umf. Selfoss

Eva María Baldursdóttir og Eric Máni Guðmundsson, íþróttafólk Umf. Selfoss 2025.
Eva María Baldursdóttir og Eric Máni Guðmundsson, íþróttafólk Umf. Selfoss 2025.

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og mótokrossmaðurinn Eric Máni Guðmundsson, hafa verið valin íþróttakona og íþróttakarl Umf. Selfoss árið 2025. Verðlaunin voru afhent á verðlaunahátíð Umf. Selfoss sem fram fór í félagsheimilinu Tíbrá fyrr í kvöld.

Eva María er efst á afrekalista íslenskra kvenna í hástökki á árinu 2025 og í 15. sæti á Evrópulista í flokki 20-22 ára. Hún er í Afrekshópi unglinga hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Eva María náði lágmarki og keppti á Evrópumeistaramóti yngri en 23 ára, einnig náði hún að komast inn á lokamót NCAA (stærstu háskólakeppni Bandaríkjanna). Hún er í þriðja sæti yfir bestan árangur kvenna í hástökki á Íslandi frá upphafi.

Eric Máni skipar sér í röð þeirra bestu á Íslandi í mótokross. Hann varð Íslandsmeistari í MX2 á árinu og keppti fyrir Íslands hönd í Motocross of Nations, sem er stærsta liðakeppni í heimi og var haldin í Bandaríkjunum á árinu. Eric Máni var kjörinn akstursíþróttamaður ársins 2025 hjá MSÍ, einnig er hann fimmfaldur Íslandsmeistari í mótokross.

Níu karlar og sjö konur voru tilnefnd í kjörinu af deildum félagsins og tóku þau við viðurkenningum á verðlaunahátíðinni.

Tilnefnt íþróttafólk deilda Umf. Selfoss.