Eva María setti Íslandsmet á Unglingalandsmótinu

Frjálsar - Eva María Baldursdóttir
Frjálsar - Eva María Baldursdóttir

Keppendur frá Héraðssambandinu Skarphéðni höfðu mikla yfirburði í frjálsíþróttakeppni Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum.

Í frétt á vef HSK kemur fram að keppendur frá sambandinu fengu langflest verðlaun í frjálsíþróttakeppninni, samtals 133, en sunnlensku krakkarnir unnu 46 gullverðlaun, 46 silfurverðlaun og 41 bronsverðlaun. Auk þess voru 11 HSK met sett á mótinu, auk Íslandsmets og mótsmeta.

Selfyssingurinn Eva María Baldursdóttir setti Íslandsmet í þrístökki 14 ára stúlkna þegar hún stökk 11,42 m. og bætti Íslandsmetið um níu sentimetra. Stökksería hennar var glæsileg, en hún þríbætti HSK metin í 14 og 15 ára flokki, fyrst stökk hún 10,85, síðan 11,24 og loks 11,42. Eldra HSK met hennar í þessum flokkum, frá því fyrr í sumar, var 10,59 metrar. Eva María hefur þar með sett Íslandsmet á tveimur Unglingalandsmótum í röð, en hún setti met í 13 ára flokki í hástökki í Borgarnesi í fyrra.

Halldór Halldórsson setti HSK met í 200 metra hlaupi 11 ára, en hann hljóp á 32,77 sek. Í 13 ára flokki voru sett HSK met í 200 metra hlaupi, bæði hjá strákum og stelpum. Sebastian Þór Bjarnason hljóp á 26,56 sek og Hrefna Sif Jónasdóttir kom í mark á 28,41 sek. Dagur Fannar Einarsson bætti 34 ára gamalt HSK met Gunnlaugs Karlssonar í 800 metra hlaupi 15 ára, hljóp á 2;11,71 sek.

Sebastian Þór Bjarnason setti mótsmet í langstökki 13 ára pilta, stökk 5,45 m og Sindri Freyr Seim Sigurðsson setti mótsmet í 200 m hlaupi 14 ára pilta, hljóp á 25,10 sek.

Þá setti Dagur Fannar Einarsson mótsmet í 200 m hlaupi 15 ára pilta, hljóp á 24,65 sek og hann var einnig í boðhlaupssveitinni Suicide Squad sem setti mótsmet í 4x100 metra boðhlaupi 15 ára á 47,50 sek. Með honum í sveitinni voru Hákon Birkir Grétarsson, Kolbeinn Loftsson og Jónas Grétarsson. Þessir kappar, sem allir eru keppendur af sambandssvæði HSK, bættu einnig HSK metið í hlaupinu í sínum aldursflokki.

---

Eva María setti Íslandsmet í þrístökki í 14 ára flokki og þríbætti HSK metin bæði í 14 og 15 ára flokki.
Ljósmynd: HSK