Frábær árangur Fjólu Signýjar á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg

Fjóla Signý Smáþjóðaleikar
Fjóla Signý Smáþjóðaleikar

Smáþjóðleikarnir í Lúxemborg voru fyrsta mót Fjólu Signýjar í sumar. Hún hóf keppni í 100 m. grind þar sem hún gerði sér lítið fyrir og hljóp á tímanum 14,41 sek. í logni, bætti HSK-metið og lenti í 2. sæti. Síðan síðar um daginn hljóp hún 400 m. grind og lenti í 3. sæti á tímanum 62,26 en hún hafði stefnt á að hlaupa hraðar. Hún hljóp svo ágætlega annan sprett í 4x400 m. boðhlaupi. Íslenska sveitin rústaði hlaupinu og bætti tímann sinn um 4 sek. frá því í fyrra. Næst hlaupa þær á Evrópubikar í Slóvaíku 21. og 22. júní og verður spennandi að sjá hversu nálægt þær komast Íslandsmetinu en þær eru núna 2 sek. frá því.

Því er svo við þetta að bæta að Fjóla Signý hreppti silfrið í 400 m. grindarhlaupi á Sayo mótinu sem fór fram í Stokkhólmi 8. júní. Hún hljóp fyrir lið sitt Falu IK á tímanum 60,97 sem er um 1 ½ sekúndu hraðar en hún hljóp á fyrir viku síðan á Smáþjóðaleikunum. Keppnistímabilið er nýhafið og býst Fjóla við að ná enn betri árangri í sumar en hún verður að keppa með landsliðinu fram að mánaðarmótum.