Guðmunda og Egill íþróttafólk Árborgar

Egill og Gumma íþróttafólk Árborgar 2013
Egill og Gumma íþróttafólk Árborgar 2013

Knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir og júdókappinn Egill Blöndal, bæði úr Umf. Selfoss, voru útnefnd íþróttafólk Árborgar 2013 á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem fram fór í gær. Eftirfarandi frétt er af heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar.

Uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar (ÍMÁ) var haldin í sal Fsu mánudaginn 30. desember. Afhentar voru viðurkenningar fyrir góðan íþróttaárangur á árinu 2013 og má með sanni segja að fjöldi viðurkenningar hafi komið á óvart en árangurinn á árinu var mjög góður hjá íþróttafólkinu.

Guðmunda Brynja Óladóttir, knattspyrnukona og Egill Blöndal, júdómaður fengu nafnbótina íþróttakona og íþróttakarl Árborgar 2013.

Mótocrossdeild Umf. Selfoss fékk hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar en uppbyggingarstarf deildarinnar á sl. árum er eftirtektavert.

Atvinnukeppnismenn úr Sveitarfélaginu Árborg voru heiðraðir og fjöldi yngri iðkenda fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur á árinu.

Íþróttafélögin deildu einnig út styrkjum úr afrekssjóðum sem sveitarfélagið leggur pening í samkvæmt samningum. Gaman var að sjá hversu margir mættu en húsfyllir var í hátíðarsal FSu og ekki sæti fyrir alla. Íþrótta- og menningarnefnd vill óska öllum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir ánægjulegt og viðburðaríkt ár. 

Jafnframt er ítarlega fjallað um hátíðina á vef Sunnlenska.is.

---

Egill Blöndal og Guðmunda Brynja með verðlaun sín.
Mynd: umfs.is/Gissur