Hörður Bjarnarson: „Erum búnir að vera bæta okkur jafnt og þétt í allan vetur“

Heimasíðan heldur áfram að hita upp fyrir umspilsleikina gegn Aftureldingu. Í kvöld fer fram fyrsti leikurinn í einvíginu og verður leikurinn kl. 19:30 í Mosfellsbæ.
Það er fyrirliðinn Hörður Gunnar Bjarnarson sem situr fyrir svörum að þessu sinni.

Hvernig líst þér á umspilsleikina gegn UMFA?
Mér líst bara vel á þá og hlakka mikið til, þetta verður hrikalega skemmtilegt að fá að spila svona leiki þar sem mikið er undir og vonandi mikil stemmning á pöllunum

Hvernig metur þú okkar möguleika?
Ég held að við eigum alveg ágæta möguleika þó að Afturelding sé kannski með sterkara lið á pappírnum. Þeir hafa líka mikla reynslu í umspili og hafa flestir gengið í gegnum það og klárað einhverntíman. Við erum samt ekki hræddir við neitt og komum klárlega í leikina til þess að vinna, við erum búnir að vera á mikilli siglingu undanfarið og sjálfstraustið er hátt. Þetta verður bara hörku barátta og það kemur í ljós mjög fljótlega hvað kemur út úr þessu. Ég veit allavega að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sigra.

Ertu sáttur við árangurinn í deildinni?
Já, ég get ekki sagt annað en að ég sé sáttur með árangurinn hjá okkur, sérstaklega ef við lítum til þess að við séum með nýjan þjálfara, misstum mjög marga leikmenn og misstum líka nokkra til viðbótar í meiðsli. Við fórum hægt af stað en erum við búnir að vera bæta okkur jafnt og þétt í allan vetur og komumst að lokum í þetta umspil sem að var eitt af okkar markmiðum fyrir tímabilið. Nú höfum við sett okkur ný markmið og vonandi náum við þeim líka.

Hvað þarf til að Selfoss komist í fremstu röð?
Það er erfitt að svara því í stuttu máli en ég skal reyna koma með nokkra punkta. Það þarf gríðarlega mikla vinnu frá leikmönnum, þjálfara, stjórn og öllum sem koma nálægt klúbbnum.
Það hefur margt gott gerst undanfarin ár hér hjá okkur og vantar lítið uppá til þess að við getum verið í fremstu röð. Barna- og unglingastarfið er búið að vera frábært undanfarin ár og það er finnst mér það mikilvægasta ef að þú ætlar að vera í fremstu röð og halda þér þar til lengdar. Ef að það er í fremstu röð líður ekki langt þangað til að við verðum komin í fremstu röð. Akademían hefur síðan verið góð viðbót við það starf og er frábær valkostur fyrir þá sem að vilja æfa enn meira og ég vildi að hún hefði verið komin þegar ég var á þeim aldri.
En frábært unglingastarf er ekki til mikils ef að við náum ekki að halda okkar leikmönnum hér á Selfossi, að spila fyrir okkar lið. Það er erfitt að missa marga lykilmenn og byrja byggja upp nýtt lið á hverju ári. Auðvitað er óumflýjanlegt að einhverjir leikmenn fara að spila annarstaðar, strákar sem að komast í atvinnumennsku eða annað, það er ekkert annað en gott um það að segja. En þangað til eiga þeir ekki að vilja spila fyrir annað lið hér á landi. Við þurfum að búa til umgjörð og félag sem að enginn vill fara frá, umgjörð eins og hún gerist best, það vantar ekki mikið uppá. Við þurfum lið og félag sem að allir ungu strákarnir vilja gera allt til þess að spila fyrir, lið sem að þeir gefa allt fyrir, þá verðum við fljótt komin ansi nálægt toppnum að mínu mati.

Eitthvað að lokum?
Ég vil bara hvetja alla til þess að koma og styðja okkur í þessum umspilsleikjum, það skiptir okkur ótrúlegu miklu máli að hafa okkar fólk með okkur og heyra í þeim upp í stúku. Áfram Selfoss!