Jafntefli á móti Fjölni

Selfoss og Fjölnir skildu jöfn eftir að Selfoss hafði verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 9-12. Fjölnir byrjaði leikinn betur en Selfoss jafnaði um miðjan fyrri hálfleikinn og náðu svo ágætis forskoti í stöðunni 5-9 en staðan var eins og áður sagði þrjú mörk í plús fyrir Selfoss í leikhléi.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn illa, hleyptu Fjölnismönnum of mikið inn í leikinn sem náðu að jafna í 13-13 á fyrstu fimm mínútunum. Jafnt var á flestum tölum eftir það og mikil spenna í lokin þar sem sigurinn gat fallið báðu megin. Jafntefli staðreynd eftir þennan leik og eitt stig í hús. Það var ekki síst góðri markvörslu að þakka en Sebastian átti góðan dag í markinu og Helgi varði mikilvæga bolta þegar hann kom inn á.

Það var allt annað að sjá til liðsins í þessum leik miðað við tvo síðustu leiki en þá var liðið að spila langt undir getu. Vonandi að strákarnir séu komnir á beinu brautina og haldi áfram að safna stigum í deildinni.

Markaskorun: Andri Már var markahæstu með sex mörk, Hörður Másson með fimm, Guðjón Ágústsson með fjögur, Hergeir Grímsson þrjú, Örn Þrastarson tvö, Elvar Örn, Ómar Vignir og Egidijus með eitt mark hver.

Sebastian varði 20 skot í markinu og Helgi varði þrjú.