Ólympíufari og þjálfari með æfingabúðir á Selfossi

Taekwondo æfingabúðir 2013
Taekwondo æfingabúðir 2013

Helgina 21. - 22. september sl. voru Jesús Ramal 6. Dan, þjálfari finnska ólympíulandsliðsins í taekwondo og Suvi Mikkonen, sem náði 5. sæti á síðustu ólympíuleikum, með æfingabúðir fyrir iðkendur taekwondo á Selfossi í sal taekwondodeildar Umf. Selfoss í Baulu.

Æfingabúðirnar gengu út á að bæta tækni og kunnáttu iðkenda. Óhætt er að fullyrða að allir hafi lært mikið af þeim og haft af bæði gagn og gaman. Mikið var um tækniæfingar en einnig styrktar- og þolæfingar.

Þau Jesús og Suvi ferðast mikið og eru mjög eftirsótt af þjálfurum, keppendum og iðkendum um allan heim til að halda æfingabúðir. Það var því svo sannarlega ánægjulegt að geta boðið okkar flotta taekwondófólki upp á svo gagnlegar og fræðandi æfingabúðir.

Annars er deildin farin á fullt skrið eftir sumarfrí og iðkendum fjölgar jafnt og þétt í greininni. Framundan er bikarmótaröð TKÍ ásamt innanfélagsmótum o.fl. Einnig verður ýmislegt gert til skemmtunar og uppbyggingar okkar frábæra taekwondofólks.