Sigur á toppliðinu

Birkir Fannar Bragason var kosinn maður leiksins
Birkir Fannar Bragason var kosinn maður leiksins

Selfossdrengir sýndu svo sannarlega hvað í þá er spunnið þegar topplið 1. deildar kom í heimsókn í Vallaskóla sl. föstudag.  Stjarnan sat á toppi deildarinnar eftir að hafa unnið alla leiki sína.

Selfyssingar komu hrikalega kraftmiklir í þennan leik og hreinlega keyrðu yfir illa áttað lið Garðbæinga. Selfoss náði 6-1 forystu með hröðum og vel útfærðum sóknaraðgerðum, þéttri vörn og frábærri markvörslu Birkis Fannars. Staðan í hálfleik 18-8 og miðað við haminn sem var á liðinu áttu fáir, utan nokkurra Garðbæinga sem lítið létu fara fyrir sér í stúkunni, von á að Stjarnan myndi ná að snúa taflinu sér í vil.

Selfoss hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og var sigurinn aldrei í hættu, lokatölur 32-24.

Sérstaklega góður leikur hjá strákunum og svo virðist sem liðið sé að smella allverulega í gang. Áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir frábærlega vel útfærðum hraðaupphlaupum og ótrúlega flottum mörkum í öllum regnbogans litum. Andri Már fór á kostum í horninu og var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk samt erfitt að taka einhvern einn út vegna þess að liðið allt átti frábæran leik en þó er vert að minnast á þátt Birkis Fannars sem átti stórleik í markinu og varði alls 18 bolta í leiknum og var valinn maður leiksins.

Markaskorun:
Andri Már 9
Teitur Örn 7
Elvar Örn 5
Hergeir 4
Alexander 3
Egidijus 2
Rúnar 1
Hrannar 1

Markvarsla:
Birkir Fannar 18 varðir boltar 50%
Helgi kom inná síðustu mínúturnar og varði eitt skot.

Myndir úr leiknum má finna á fésbókarsíðu Selfoss Handbolti.

MM
JÁE (myndir)