Yoffe íhugar að sækja rétt sinn gegn FIFA

Yoffe flýgur gegn Þrótti
Yoffe flýgur gegn Þrótti

Ítarlega er sagt frá því á vefmiðlinum Sunnlenska.is að Joseph Yoffe, leikmaður knattspyrnuliðs Selfoss, íhugi að lögsækja FIFA vegna reglna um félagaskipti á milli landa.

Yoffe hefur leikið með Selfyssingum í 1. deildinni í sumar en tímabilinu þar lýkur eftir rúma viku. Þá er þessi 26 ára gamli leikmaður ,,lokaður inni" á Íslandi því að félagaskiptaglugginn í flestum löndum opnar ekki fyrr en í janúar. 

Yoffe er ósáttur við þetta þar sem hann verður samningslaus um mánaðarmót og telur að þá eigi hann að geta án vandræða gengið til liðs við félag í öðru landi. Yoffe segir að þetta hamli réttindum hans til þess að skipta um starf sem á að vera tryggt undir lögum Evrópusambandsins. 

Ef að Yoffe fer í mál gegn FIFA gæti það orðið stærsta félagaskiptamálið í fótboltanum síðan belgíski leikmaðurinn Jean-Marc Bosman vann frægan sigur árið 1995 um að félög geta ekki krafist greiðslu fyrir samningslausa leikmenn. 

Það var Fótbolti.net sem greindi fyrst frá málinu.

Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl