Stelpurnar áfram á sigurbraut

700w
700w

Selfoss vann öruggan 6-2 sigur á ÍBV í slagnum um Suðurlandið á Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna sem fram fór á þriðjudag. Selfoss heldur í við Þrótt í baráttunni um þriðja sæti deildarinnar með sigrinum.

Stelpurnar frá Selfossi voru algjörlega frábærar í fyrri hálfleik og stjónuðu leiknum frá a-ö. Þær uppskáru mark strax á áttundu mínútu þegar að Caity Heap tók aukaspyrnu utan af velli, beint á kollinn á Kristrúnu Rut Antonsdóttir sem stýrði boltanum af löngu færi í slánna og inn.

Annað mark leiksins kom rúmum tíu mínútum síðar þegar að Magdalena Anna Reimus gerði vel í að halda boltanum í leik og keyrði síðan upp völlinn. Hún fann samherja sinn fyrir utan teig og Brenna Lovera skoraði falleg mark í nærhornið.

Tæpum fimm mínútum fyrir leikhlé áttu heimakonur hornspyrnu, og eftir mikinn darraðadans í teignum náði Þóra jónsdóttir að moka boltanum yfir línuna og staðan því 3-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Eyjakonur komu mun beittari til leiks í seinni hálfleik, en samt voru það Selfyssingar sem skoruðu fyrsta mark hálfleiksins. Susanna Joy Friedrichs kom boltanum þá inn á teig og gestirnir náðu ekki að hreinsa frá. Caity Heap tók þá boltann og kláraði færið vel.

Á 63. mínútu var Olga Sevcova kominn inn á teig Selfyssinga þegar að Eva Núra Abrahamsdóttir togaði hana niður og vítaspyrna dæmd. Þóra Björg Stefánsdóttir fór á punktinn og sendi Benedicte Håland í rangt horn og minnkaði þar með muninn í 4-1.

Fimm mínútum síðar fékk Viktorija Zaicikova boltann inn á teig Selfyssinga eftir hornspyrnu þar sem hún tók vel á móti boltanum með lærinu og lagði hann síðan í netið.

Eyjakonur sóttu mikið það sem eftir var leiks, en það opnaði glufur fyrir skyndisóknir hjá Selfyssingum. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka slapp Brenna Lovera ein í gegn, en Auður varði vel í markinu. Brenna tók hinsvegar frákastið og kom honum á Magdalenu sem breytti stöðunni í 5-2.

Magdalena var svo aftur á ferðinni á annari mínútu uppbótartíma þegar að hún slapp ein í gegn eftir frábæra sendingu frá varamanninum Írisi Emblu Gissurardóttir sem var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi. Magdalen gerði engin mistök og tryggði Selfyssingum öruggan 6-2 sigur.