3. flokkur tapaði fyrir UMFA

Strákarnir okkar náðu sér ekki á strik í þessum leik. Þó var vörn og markvarsla góð síðustu 50 mín. leiksins en á fyrstu 10 mín. var hún ekki að smella. Gestirnir leiddu 3-7 eftir aðeins 10 mín en þá hrökk vörnin og markvarslan í lag og 24 mörk á sig er alls ekki mikið. En því miður þá var sóknarleikur liðsins alls ekki nógu góður í þessum leik.

Fullt af tækifærum voru að skapast í sóknarleiknum en frábær markvörður gestana hreinlega lokaði markinu. Við það misstu strákarnir eilítið trúnna á leikskipulagið og fóru að reyna að gera hlutina upp á eigin spýtur, en það gekk heldur ekki, þannig að niðurstaðan varð 20 mörk skoruð úr alls 58 skotum.  

Munurinn sem gestirnir náðu í upphafi leiks hélst svo til leiksloka. Af 24 mörkum gestana voru 7 skoruð úr hraðaupphlaupum eftir sóknarmistök eða misheppnaða skottilraun. Strákarnir okkar voru því ekki að hlaupa vel til baka að þessu sinni. 7 mörk af 24 er mikið í leik þar sem markaskorið er ekki meira.

Okkar strákar náðu aldrei að spila sig inn í leikinn og munurinn á liðunum var aldrei minni en 3 mörk í leiknum. Það má því segja að sigur gestanna hafi verið bæði sanngjarn og verðskuldaður. Þeir spiluðu frábæra vörn og voru skynsamir í sínum aðgerðum í sókn.

En svona eru íþróttir og sem betur fer er stutt í næsta leik. Strákarnir fá þá tækifæri til þess að komast aftur á sigurbraut. Verkefnið að þessu sinni er veglegt. Sjálfir Íslandsmeistararnir á þeirra heimavelli í undanúrslitum Bikarkeppninnar bíða handan við hornið. Leikurinn er á miðvikudaginn kemur kl. 21:00 í Safamýri.

Ef að vinir og aðstandendur geta séð sér fært að koma á leikinn þá væri allur stuðningur vel þeginn enda getur hann skipt máli.

Áfram Selfoss