97 liðið sigraði Fram

Strákarnir á eldra ári 4. flokks (97) mættu Fram í Vallaskóla í gær. Framarar eru með öflugt lið í þessum árgangi en á þessum fimmtudegi voru Selfyssingar töluvert sterkari og unnu 24-22.

Selfoss náði strax yfirhöndinni í leiknum og lét forystu sína aldrei af hendi. Fljótlega var munurinn orðinn fjögur mörk og möguleiki á að stækka forskotið. Framarar minnkuðu muninn aðeins fyrir hlé og fór Selfoss t.d. illa með kafla þar sem þeir voru einum leikmanni fleiri. Staðan var 12-10 í hálfleik.

Selfoss aðlagaðist frábærlega í síðari hálfleik og kláraði leikinn í raun á fyrstu 10 mínútum hálfleiksins. Staðan var orðin 19-12 um það leyti. Frábær vörn, markvarsla, hraðaupphlaup og vel útfærður sóknarleikur bjó til það forskot. Eftir það var sigurinn aldrei í hættu. Framarar minnkuðu muninn jafnt og þétt, og í raun og veru full mikið, það sem eftir var leiks.  Lokatölur urðu 24-22 sigur Selfoss.

Afar ánægjulegt var að sjá hvernig menn komu undirbúnir í þennan leik. Menn voru mjög yfirvegaðir og klókir en samt gríðarlega árásargjarnir jafnt í sókn sem vörn. Það sést á því að liðið byrjar fyrri hálfleikinn og seinni hálfleikinn gríðarlega vel. Það var ekkert stress heldur fögnuðu menn bara áskoruninni.

Þeir Richard Sæþór, Hergeir Grímsson, Elvar Örn og Ómar Ingi báru af í Selfoss liðinu að þessu sinni jafnt í sókn sem vörn. Oliver Ingvar kom svo upp afar sterkur í seinni hálfleik og skipti sköpum.