Barbára Sól og Áslaug Dóra framlengja við Selfoss

Barbára og Áslaug skrifa undir
Barbára og Áslaug skrifa undir

Unglingalandsliðskonurnar Barbára Sól Gísladóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir skrifuðu í síðustu viku undir nýja samninga við knattspyrnudeild Selfoss.

Barbára Sól er 18 ára og hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 81 meistaraflokksleik fyrir Selfoss auk þess að spila 29 landsleiki með U16, U17 og U19 liðum Íslands. Barbára Sól, sem er bakvörður og kantmaður, var valin í lið ársins í Pepsi Max deildinni á liðnu sumri.

Áslaug Dóra er 16 ára gömul og hefur spilað 31 leik með meistaraflokki Selfoss en hún á einnig að baki 16 leiki með U16 og U17 liðum Íslands. Hún spilar ýmist á miðjunni eða í vörninni og var valin efnilegasti leikmaður Selfoss á lokahófi félagsins í haust.

„Ég er gríðarlega ánægður með að Barbára og Áslaug Dóra kusu að framlengja samninga sína við Selfoss. Þær eru uppaldar hjá félaginu og hafa bætt sig mikið í umhverfinu sem við höfum skapað hérna á Selfossi. Við erum að byggja til framtíðar og þær verða áfram lykilleikmenn í uppbyggingu liðsins,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfossliðsins.

Barbára Sól (t.v.) og Áslaug Dóra ásamt Alfreð Elíasi Jóhannssyni, þjálfara Selfoss. Ljósmynd/UMFS