Dagný til liðs við Portland Thorns

Dagný Selfoss
Dagný Selfoss

Dagný Brynjarsdóttir mun leika með Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu á næstu leiktíð.

Frá þessu var greint á vefsíðunni Sunnlenska.is.

Dagný þekkir vel í til í Bandaríkjunum eftir nám í Florida State háskólanum þar sem hún var fyrirliði í sigursælu liði skólans og einn besti leikmaður háskólaboltans á síðustu leiktíð. Þaðan gekk hún í raðir Bayern München og varð þýskur meistari síðasta vor, áður en hún gekk aftur í raðir Selfoss og lék með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Portland Thorns er eitt sterkasta liðið í bandarísku NWSL deildinni með margar landsliðskonur innan sinna raða. Liðið vann meistaratitilinn árið 2013 og komst í undanúrslit 2014 en náði ekki sæti í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.

„Dagný er mjög kraftmikill íþróttamaður með sigurvilja og vill vera í fremstu röð,“ segir Mark Parsons, yfirþjálfari Portland Thorns, á heimasíðu félagsins, þar sem hann eys Dagnýju lofi.

„Hún getur spilað margar stöður en leikur helst inni á miðjunni og hleypur endalaust. Hún er sterk í návígjum og góður skallamaður auk þess sem hún skorar mikilvæg mörk í mikilvægum leikjum. Það eru ekki margir leikmenn þarna úti sem hafa sömu hæfileika. Hún er leikmaður sem mun birtast á réttum stað á réttum tíma þegar þú þarft mest á henni að halda.“

Við óskum Dagnýju góðs gengis í Bandaríkjunum og hlökkum til að fylgjast með henni á stóra sviðinu í knattspyrnunni.