Eins marks tap í botnslagnum

3
3

Selfoss tapaði gegn KA/Þór með einu marki eftir einn svakalegan lokakafla þar sem stelpurnar köstuðu sigrinum frá sér. Lokatölur 28-29.

Leikurinn byrjaði rólega og var jafn fyrstu mínúturnar. KA/Þór tók síðan forystu og hélt henni allt fram í lok leiks. Hálfleikstölur voru 13-16, gestunum í vil. Norðanstelpur héldu áfram í seinni hálfleik og náðu mest sex marka forskoti, 14-20. En þá tóku stelpurnar aldeilis við sér og söxuðu á forskotið. 

Selfoss jafnaði loks leikinn 25-25 þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum og þá tók við æsispennandi lokakafli. KA/Þór hafði frumkvæðið en Selfyssingar svöruðu jafn harðan. Staðan var 28-28 þegar ein mínúta var eftir og ruðningur dæmdur á KA/Þór, Selfyssingar voru því í kjörstöðu og tóku leikhlé þegar um 30 sekúndur voru eftir. Þær voru hins vegar sofandi þegar leikurinn var flautaður aftur á og rétt norðanstúlkum boltann sem skoruðu í tómt markið, því fór sem fór, 28-29.

Selfoss er því áfram í botnsæti deildarinnar með 4 stig.

Mörk Selfoss: Perla Ruth Albertsdóttir 8, Hulda Dís Þrastardóttir 5, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4/1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1, Sarah Boye 1, Carmen Palamariu 1.

Varin skot: Katrín Ósk Magnúsdóttir 17 (37%).

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is og Mbl.is. Leikskýrslu má sjá hér.

Næsti leikur hjá stelpunum er gegn Haukum í Hafnarfirði á þriðjudaginn, nú þurfa stelpurnar að gefa allt í botn enda lítið eftir af deildinni.
____________________________________
Mynd: Katrín Ósk Magnúsdóttir átti stórleik í rammanum í dag þrátt fyrir tap.
Umf. Selfoss / JÁE