Gekk ekki í Kaplakrika

Selfyssingar mættu FH í Kaplakrika í gær í 4. flokki karla. Seinast þegar þessi lið áttust við vann Selfoss í bæði A og B liðum með einu marki. Núna voru FH-ingar sterkari og unnu báða leikina.

A-liðið var undir framan af leik en komst 8-11 yfir eftir 15 mínútna leik. Liðið náði ekki að halda forystu sinni og skoraði FH full mikið af seinni bylgju mörkum þar sem Selfyssingar voru of lengi að snúa. FH-ingar leiddu 16-14 í hálfleik. Heimamenn voru alltaf aðeins á undan í síðari hálfleik og náði Selfoss aldrei að ógna þeim almennilega. Lokatölur urðu 28-25 sigur FH.

Varnarleikur Selfoss gekk ekki í þessum leik og þá er erfitt að vinna sterkt lið eins og FH en Selfyssingar eru eina liðið sem hefur unnið þá í vetur. Sóknarleikurinn gekk vel í fyrri hálfleik en upp á vantaði í þeim síðari.

Svona fór að þessu sinni. Selfyssingar halda nú sínu striki bara áfram og strax um næstu helgi fá þeir kjörið tækifæri til að bæta fyrir þennan leik þegar Eyjamenn koma í heimsókn. Í vikunni eftir það leikur liðið líklegast í undanúrslitum í bikar svo það eru einungis spennandi verkefni framundan.

B-liðið var yfir framan af leik og til að mynda 7-8. Endar Selfoss þá hálfleikinn illa og FH 13-11 yfir í hálfleik. Selfyssingar skoruðu fyrstu 3 mörk síðari hálfleiksins og komust yfir. Eftir það gekk lítið sem ekkert upp hjá okkar mönnum og sigraði FH 26-19.

Strákarnir voru of hægir bæði í vörn og sókn. Varnarlega unnu leikmenn ekki nógu vel saman og verður að laga það fyrir komandi verkefni. Í sókninni var leikur liðsins mjög kaflaskiptur, inn á milli sást fínt spil en heilt yfir vantaði meiri hraða.

Rík ástæða er til að hvetja fólk til að mæta næstkomandi föstudag í Vallaskóla þegar bæði liðin leika gegn ÍBV. A-liðið byrjar kl. 16:00, og B-liðið kl. 17:00.