Góð þátttaka í Þórðarmótinu

Árlegt Þórðarmót Sunddeildar Umf. Selfoss var haldið sunnudaginn 28. október í Sundhöll Selfoss. Þórðarmótið er haldið til minningar um Þórð Gunnarsson þjálfara og sundkennara sem starfaði lengi á Selfossi. Að þessu sinni voru 44 keppendur skráðir á mótið og komu þeir frá Selfossi og Hvolsvelli. 31 barn, 10 ára og yngri fengu afhent þáttökuverðlaun, en yngstu keppendur mótsins voru sex ára og komu frá Selfossi. Mjög margir keppenda voru að taka þátt í sínu fyrsta móti enda mörg hver einungis búin að æfa í nokkrar vikur. Á mótinu var m.a. keppt í mjög óhefðbundnum greinum t.d. fótatökum með kork.

Þröngt var um áhorfendur á bakkanum en krakkarnir fengu mikla hvatningu. Gekk mótið mjög vel og lögðust allir á eitt að gera það skemmtilegt. Mótið tók um tvær klukkustundir og var keppt í 12 greinum. 

Eygló Gunnarsdóttir, systir Þórðar heitins, afhenti stigahæsta sundmanni mótsins, Ólöfu Eir Hoffritz, Þórðarbikarinn sem gefinn er af fjölskyldu Þórðar. Ólöf átti stigahæsta sundið sem var 50 m skriðsund og gaf það henni 458 FINA stig. 

Sunddeildin vill koma á framfæri þökkum til allra keppenda, foreldra, þjálfara og starfsmanna mótsins og ekki síst starfsmönnum Sundhallar Selfoss sem lögðu sig fram um að gera mótið mögulegt.

Efri mynd: Ólöf Eir Hoffritz, stigahæsti sundmaður mótsins, ásamt Eygló Gunnarsdóttur, systur Þórðar.
Neðri mynd: Frá afhendingu þátttökuverðlauna