Guðmunda Brynja mætir Hollandi

Gumma gegn Póllandi 2
Gumma gegn Póllandi 2

Fyrirliði Selfoss í knattspyrnu, Guðmunda Brynja Óladóttir, er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Hollendingum í vináttulandsleik í Kórnum, laugardaginn 4. apríl næstkomandi.  Leikið verður í Kórnum og hefst leikurinn kl. 14:00.

Þetta verður í áttunda skiptið sem þjóðirnar eigast við hjá A landsliði kvenna en Ísland hefur fimm sinnum farið með sigur af hólmi í viðureignunum hingað til, einu sinni hefur orðið jafntefli og einu sinni hefur Holland haft betur.  Þjóðirnar munu svo leika vináttulandsleik í Hollandi á næsta ári.

Síðast léku þjóðirnar í úrslitakeppni EM í Svíþjóð árið 2013 og þá hafði Ísland betur, 1 – 0 með marki Dagnýjar Brynjarsdóttur fyrrverandi leikmanns Selfoss.

Holland undirbýr sig nú af kappi fyrir úrslitakeppni HM í Kanada sem hefst 6. júní en þar leika þær í riðli með Kína, Nýja Sjálandi og heimastúlkum.  Holland mun svo verða gestgjafi úrslitakeppni EM 2017 en dregið verður í riðla undankeppninnar þann 13. apríl næstkomandi og verður Ísland þar í efsta styrkleikaflokki.  Holland situr nú í 12. sæti á styrkleikalista FIFA meðan íslenska liðið er í 20. sæti.