Guðmundur Kr. heiðursfélagi Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss

Heiðursfélagi frjálsar 2015
Heiðursfélagi frjálsar 2015

Aðalfundur Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss fór fram í Tíbrá í gær. Fjöldi fólks mætti á fundinn sem fór vel fram og kom fram í skýrslu formanns og ársreikningum að starf og rekstur deildarinnar er í miklum blóma. Iðkendum fjölgaði nokkuð á seinasta ári og árangur var góður, sér í lagi hjá yngri iðkendum deildarinnar.

Þar bar helst til tíðinda að Guðmundur Kr. Jónsson fyrrverandi iðkandi, þjálfari og formaður deildarinnar var útnefndur heiðursfélagi Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss fyrir farsælt og óeigingjarnt starf sitt fyrir deildina um áratuga skeið. Guðmundur Kr. er vel að heiðrinum kominn og tók við viðurkenningunni úr hendi Helga S. Haraldssonar formanns deildarinnar eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni.

Stjórn deildarinnar var endurkjörin en hana skipa auk Helga þau Sólveig Guðjónsdóttir gjaldkeri, Þuríður Ingvarsdóttir ritari, Sigurður Ágúst Pétursson, Svanhildur Bjarnadóttir og Guðjón Sigfússon meðstjórnendur auk Thelmu Bjarkar Einarsdóttur fulltrúa iðkenda 16-25 ára.

Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum voru iðkendur deildarinnar heiðraðir fyrir góða ástundun, framfarir og afrek síðasta árs.

Dominic Þór Fortes hlaut viðurkenningu fyrir þann íþróttamann sem hefur sýnt mjög góða ástundun hjá iðkendum 7 ára og yngri.

Í flokki 8-10 ára mætti Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir best á æfingar. Þetta er fimmta sumarið í röð sem hún mætir best í sínum aldursflokki, svo sannarlega metnaðarfull stúlka hér á ferð.

Í sumar mættu Hildur Helga Einarsdóttir og Hjalti Snær Helgason mjög vel á æfingar hjá 11-14 ára iðkendum. Þessi ástundun skilaði þeim góðum árangri og bæði bættu sig mikið á árinu og gekk vel á mótum sumarsins.

Hákon Birkir Grétarsson og Hildur Helga Einarsdóttir fengu framfararbikar 14 ára og yngri en þau sýndu gríðarlega miklar framfarir á árinu í sínum greinum.

Afreksmenn 14 ára og yngri að þessu sinni eru tveir, þeir Pétur Már Sigurðsson og Kolbeinn Loftsson.  Báðir þessir drengir eru mjög fjölhæfir frjálsíþróttamenn og í gríðarlegri framför.

Í meistarahóp voru einnig veitt verðlaun.

Harpa Svansdóttir og Jónína Guðný Jóhannsdóttir eru handhafar framfarabikars Frjálsíþróttadeildar Selfoss að þessu sinni.

Afreksmaður Frjálsíþróttadeildar Selfoss árið 2014 er Thelma Björk Einarsdóttir og náði hún góðum  árangri á frjálsíþróttavellinum. Hún stundaði æfingar af kappi allt árið og uppskar eftir því . Thelma Björk leggur aðallega stund á kastgreinar og eru hennar aðalgreinar sleggjukast og kringlukast auk þess sem hún tekur í kúluna af og til.

Thelma varð Íslandsmeistari í kringlukasti í sínum  aldursflokki á MÍ 15 – 22 ára sem haldið var á Selfossvelli sl. sumar. Þar sigraði hún með yfirburðum með sitt lengsta kast á árinu, 33,61 m sem er góð bæting . Hún vann svo til bronsverðlauna í kringlukasti á MÍ fullorðinna í Kaplakrika um miðjan júlí með kast upp 32,16 m.

Thelma Björk er í efsta sæti á afrekaskrá ársins í kringlukasti í sínum aldursflokki (18-19 ára) og í fimmta sæti í fullorðinsflokki. Þá er hún í fjórða sæti afrekaskrárinnar í sleggjukasti síns flokks og sjötta sæti í kúluvarpi.

Thelma Björk hefur alla tíð verið góð fyrirmynd yngri kynslóðarinnar í frjálsíþróttum og verið mjög góður félagi félaga sinna og leggur sig fram af alefli í öll þau verkefni sem henni eru fengin.

---

Hér fyrir neðan eru verðlaunahafar frá gærkvöldi. Frá vinstri eru Jónína Guðný, Dýrleif Nanna (fyrir framan), Thelma Björk, Harpa, Hákon Birkir, Hjalti Snær, Kolbeinn, Dominic Þór og Hildur Helga. Á myndina vantar Pétur Má.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur Jónsson

Verðlaunhafar Aðalfundur Frjálsar 2015