Haustmót eldri flokka

2. flokkur eftir keppni á haustmóti
2. flokkur eftir keppni á haustmóti

Helgina 29. - 30. nóvember stóð Fimleikasamband Íslands fyrir Haustmóti eldri flokka og var það að þessu sinni haldið í Stjörnunni, Garðabæ.
Selfoss átti þar 7 lið og var virkilega gaman að hefja keppnistímabilið hjá þessum hópum.

Keppnin í 1. flokki var mjög spennandi en þar voru komin 7 lið til þess að keppast um þátttökurétt á Norðurlandamóti. Selfoss átti þar tvö lið, stúlkna lið og mixlið. Nánar má lesa um frammistöðu þeirra hér, en dagurinn var frábær og liðin sigruðu sína flokka og eru á leið á NMJ í Noregi í apríl. Stórkostleg frammistaða!

Selfoss átti eitt lið í 2. flokki og voru þær tilbúnar í þetta fyrsta mót. Einhverjir hnökrar urðu á æfingunum hjá þeim en heilt yfir var frammistaðan hjá liðinu góð og gaman að sjá þetta nýja lið slípast saman. Þær eiga nóg inni og við erum spennt fyrir því að sjá hvað þær munu gera í vetur. Þeirra sterkasta áhald á þessu móti var trampólín en þar lentu þær í 4. sæti og í 7. sæti samanlagt. 

Í 3. flokki áttum við með 4 lið, 2 í stökkfimi og 2 í hópfimleikum.
Liðin voru vel undirbúin en þau nýttu haustið í að setja saman umferðir eftir nýjum reglum sem voru gefnar út í sumar og gera breytingar á gólfæfingunum sínum. Það er að ýmsu að huga þegar kemur að því að uppfylla þær kröfur sem eru settar fram í reglunum og gaman að sjá hvernig liðin útfæra það. Liðin frá Selfossi skiluðu sínum æfingum vel og mega vera stolt af sér eftir daginn. Í hópfimleikum er haustmót nýtt til þess að skipta liðunum upp í deildir fyrir keppnisveturinn og voru liðin frá Selfossi í 1. sæti og 6. sæti sem þýðir að við eigum 2 lið í A-deildinni í vetur, en 9 efstu liðin keppa saman í A-deild. Í stökkfiminni lentu liðin í 6. sæti og 9. sæti samanlagt og verður mjög gaman að fylgjast öllum þessum liðum eflast í vetur.

 

Til hamingju með helgina kæru keppendur, þjálfarar og Selfoss - við erum stolt af ykkur!