Hjálmar Vilhelm með lágmark á Norðurlandameistaramót

Hjálmar Vilhelm
Hjálmar Vilhelm

Frábær árangur náðist á Vormóti HSK þrátt fyrir slæmar veðuraðstæður sem buðu upp á kulda, rigningu og rok.

Hæst ber að nefna að Hjálmar Vilhelm Rúnarsson náði lágmarki á Norðurlandameistaramótið í fjölþrautum með því að ná 6.025 stigum í tugþraut og sigra tugþrautina. Árangur hans í þrautinni var eftirfarandi: 100 m hlaup 11,57 s, langstökk 6,28 m, kúluvarp 13,37 m, hástökk 1,81 m, 400 m hlaup 54,87 s, 110 m grind 17,15 s, kringlukast 33,96 m, stangarstökk 3,30 m, spjótkast 54,12 m og 1.500 m hlaup 5:15,12 m. Árangur Hjálmars Vilhelms er jafnframt HSK met en fyrra metið var 5.965 í eigu Dags Fannars Magnússonar. Þess má geta að Hjálmar Vilhelm er einnig einungis 375 stigum frá lágmarki í tugþraut á EM U18.

Bryndís Embla Einarsdóttir náði þeim frábæra árangri að bæta Íslandsmetið í flokki 15 ára í spjótkasti um 3,72 m þegar hún kastaði 43,56 m með 500 gr spjóti. Hún bætti einnig HSK metin í spjótkasti í flokkum 15 ára og 16-17 ára með þessu risakasti en Hildur Helga Einarsdóttir átti gömlu metin sem voru 42,13 m.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson hljóp 800 m gríðarlega vel við erfiðar veðuraðstæður og hljóp á tímanum 2:00,48 mín og sigraði hlaupið. Lágmarkið í 800 m hlaupi á EM U18 er 1:56 mín sem hann getur hæglega náð.

Vésteinn Loftsson bætti sig í kringlukasti með 1,5 kg kringlu þegar hann kastaði 46,16 m og bætti sinn besta árangur og Arndís Eva Vigfúsdóttir kastaði sig inn í Úrvalshóp FRÍ í flokki 15 ára með því að kasta kúlunni 11,45 m og eru núna ellefu keppendur frjálsíþróttadeildar Selfoss með lágmörk í Úrvalshópinn.

Bryndís Embla

Þorvaldur Gauti