Hrafnhildur Hanna og Ægir fimleikamenn ársins 2012

Á jólasýningu fimleikadeildarinnar hefur skapast sú hefð að útnefna fimleikakonu ársins. Nú var bætt um betur og einnig útnefndur fimleikakarl ársins. Þetta árið voru það Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Ægir Atlason sem hlutu þessa nafnbót. Þau eru bæði vel að titlunum komin. Hrafnhildur Hanna varð Evrópumeistari með unglingalandsliði Íslands í hópfimleikum á dögunum og Ægir keppti með blönduðu liði Íslands sem hafnaði í 4. sæti á sama móti. Þau eru bæði lykilmenn í keppni fyrir fimleikadeild Selfoss sem og góðar fyrirmyndir. Vart þarf að nefna að metnaður, áhugi og endalausar æfingar hafa skilað þeim á þann stað sem þau eru í dag. Fimleikadeild Selfoss færir þeim innilegar hamingjuóskir og óskar þeim góðs gengis í framtíðinni. -ob