Kastþraut Óla Guðmunds. 2014

kastþraut_ólag_2014_selfossvelli (25)
kastþraut_ólag_2014_selfossvelli (25)

Kastþraut Óla Guðmunds fór fram með pompi og prakt á miðvikudaginn 3. september. Fín þátttaka var í þrautinni, tíu karlar og átta konur sem er önnur fjölmennasta þrautin frá upphafi. Hörkukeppni og skemmtilegir tilburðir sáust þetta kvöld þar sem gamanið var í fyrirrúmi.

Í karlaflokki sigraði, þriðja árið í röð, Hilmar Örn Jónsson ÍR á nýju mótsmeti karla í þraut. Hann fékk 3.964 stig og bætti gamla metið, sem hann átti sjálfur, um rúmlega 200 stig. Í öðru sæti varð Jón Bjarni Bragason Breiðabliki með 2.994 stig og í þriðja sæti varð gestgjafinn sjálfur Óli Guðmunds. Umf. Selfoss með 2.724 stig.

Í kvennaflokki voru, eins og í karlaflokknum, gamlar kempur í bland við ungar og upprennandi. Sigurvegari kvenna varð Anna Pálsdóttir Umf. Selfoss með 2.406 stig en þetta er í fjórða skipti sem Anna sigrar kastþraut kvenna. Í öðru sæti varð Eyrún Halla Haraldsdóttir Umf. Selfoss með 2.313 stig og í þriðja sæti varð Jóhanna Herdís Sævarsdóttir Laugdælum með 1.844 stig. Ekki langt undan í fjórða sæti varð Sigríður Anna Guðjónsdóttir Umf. Selfoss með 1.832 stig en hún setti fjögur HSK met í sínum aldursflokki öldunga.

Efstu þrír hjá hvoru kyni fengu verðlaunapeninga í boði Bros-Gjafavers. Auk þess fékk sigurvegarinn verðlaunagrip gefinn af Bros-Gjafaver og Guðmundi Kr. Jónssyni og Láru Ólafsdóttur. Í lok móts var kaffi og bakkelsi í boði Guðnabakarís á Selfossi. Athöfnin fór fram í Selinu á Selfossvelli þar sem verðlaun voru afhent.

Frábært kvöld í frábæru veðri . Takk fyrir allir.

Óli Guðm.