Magnaður sigur á Haukum

Haukur Þrastarson
Haukur Þrastarson

Selfoss sigraði Hauka 26-25 í hörkuleik í Olísdeildinni eftir dramatískan lokakafla, ekki þann fyrsta í vetur.

Selfyssingar byrjuðu leikinn betur og komust 11-7 þegar um 20 mínútur voru búnar af leiknum. Þá kom góður kafli Haukamanna og leiddu þeir í hálfleik, 13-14. Liðin skiptust á að leiða í seinni hálfleik en þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum voru Haukar komnir þremur mörkum yfir, 22-25. Þá virtist leikurinn búinn en Selfyssingar voru ekki á sama máli.

Selfoss skipti í maður-á-mann vörn og Haukur Þrastarson náði að stela boltanum þrisvar sinnum í röð og skoraði þrjú mörk á síðustu mínútunum, allt í einu var staðan orðin jöfn, 25-25. Árni Steinn hefði getað komið Selfoss yfir en Björgvin Páll varði frá honum og Haukar fóru í sókn. Sölvi Ólafsson varði hins vegar einnig hinu megin og Selfyssingar gátu því komist yfir. Elvar Örn tók skot þegar um 3 sekúndur voru eftir af leiknum og boltinn lak inn í markið, fram hjá markmanninum og tryggði Selfoss eins mark sigur, 26-25. Ótrúlegur 4-0 lokakafli!

Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 6, Elvar Örn Jónsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 4, Teitur Örn Einarsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 1.

Varin skot: Helgi Hlynsson 8 (33%) og Sölvi Ólafsson 4 (33%).

Eftir sigurinn er Selfoss enn í 3.sæti, nú með 26 stig, þremur stigum frá Haukum og Val, en Valur á tvo leiki til góða. Næsti leikur er gegn Gróttu hér heima mánudaginn 26.febrúar, en þá er einnig leikur hjá stelpunum, svokallaður tvíhöfði.

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is, Mbl.is og Vísir.is. Leikskýrslu má nálgast hér.

____________________________________________

Mynd: Haukur Þrastarson var klárlega maður leiksins í kvöld.

Umf. Selfoss / Jóhannes Á. Eiríksson.