Ódýrt að æfa knattspyrnu á Selfossi

Norðurálsmótið
Norðurálsmótið

Líkt og undanfarin ár sýnir verðlagseftirlit ASÍ að æfingagjöld í knattspyrnu á Selfossi er með því allra lægsta á landinu.

Þetta kemur Gunnari Rafni Borgþórssyni yfirþjálfara yngri flokka ekki á óvart og hann bætti við „Við erum ánægð með niðurstöðu sem við áður vissum en þrátt fyrir að vera með þetta lág æfingagjöld býður knattspyrnudeildin upp á vaktaðar rútuferðir í bestu æfingaaðstöðuna á Suðurlandi yfir vetrartímann í Hamarshöllinni í Hveragerði." Þetta er frábær þjónusta við íbúa á Selfossi þar sem lagt er upp úr metnaði og fagmennsku.

Verðlagseftirlitið tók saman æfingagjöld í knattspyrnu hjá sextán íþróttafélögum víðsvegar um landið. Borin voru saman æfingargjöld hjá 4. og 6. flokki félaganna. Svo verðlagseftirlitið gæti borið gjöldin saman var fundið út mánaðargjald, þar sem félögin hafa ekki samræmda uppsetningu á gjaldskránni.

Í 4. flokki er ódýrast að æfa hjá Selfoss og ÍR þar sem mánaðargjaldið er kr. 5.500 en dýrast er að æfa hjá Breiðabliki en hjá þeim kostar mánuðurinn 8.250 kr. Verðmunurinn er 50%

Í 6. flokki kostar mánuðurinn hjá Selfoss kr. 5.000 og er einungis ódýrara hjá KA en þar kostar mánuðurinn kr. 4.667. Aftur er dýrast að æfa hjá Breiðabliki en þar kostar mánuðurinn kr. 7.417 kr. Verðmunurinn á Selfoss og Breiðablik er 48%.

Gjaldskrá félaganna hækkaði að meðaltali um 8% milli ára en hjá Selfossi hækkaði hún um 10% í 4. flokki og 11% í 6. flokki.

Nánari upplýsingar um könnunina má finna á vefsíðu ASÍ.