Selfoss-strákar 97 unnu brons á Norden Cup

Tvö Selfosslið tóku þátt í Norden Cup sem fór fram í Gautaborg á milli jóla og nýárs. Var þar um að ræða strákalið og stelpulið úr árgangi 1997. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu bronsverðlaun er þeir sigruðu Bakkelagets Sportsklub með einu marki í leik um þriðja sætið.

Strákarnir voru í mjög sterkum riðli þar sem m.a. voru þrjú af átta efstu liðunum frá sama móti í fyrra. Þeir byrjuðu á því að sigra Skövde 21:17. Í öðrum leik mættu þeir norska liðinu Bækkelaget sem náði að sigra Selfyssinga 14:18. Seinasti leikurinn í riðlinum var því úrslitaleikur um að komast áfram í 8-liða úrslit. Selfoss sigraði þar mjög gott lið Norrköpingfrá Svíþjóð, sem endaði í 5. sæti á mótinu í fyrra, 25:24, eftir að hafa verið mest fimm mörkum yfir.

Selfoss mætti svo sænska liðinu Silwing/Troja í 8-liða úrslitum og sigraði 22:19 í góðum leik. Náðu þeir þar að kvitta fyrir tapið gegn sama liði í úrslitaleik á móti í september. Í undanúrslitum mætti Selfoss liði Falk frá Noregi. Eftir jafnan leik höfðu Norðmennirnir sigur 18:20. Í leik um bronsið mætti Selfoss aftur liði Bækkelaget sem stillti upp í sömu taktík og í fyrri leik liðanna. Núna átti Selfoss svör við henni sem skilaði 16:15 sigri og bronsinu.

Strákarnir áttu gott mót og geta verið sáttir við sína frammistöðu. Liðið var hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn, en varð að láta sér bronsið nægja að þessu sinni. Annað sinn í röð unnu þeir til verðlauna á þessu sterka móti og sýnir það styrk liðsins.

Stelpunum gekk mjög vel á mótinu. Þær spiluðu við sterk lið í öllum leikjunum, en þær lentu í sterkasta riðlinum á mótinu. Þær töpuðu öllum fjórum leikjunum í riðlinum en unnu þrjá í keppni um 17.-20 sæti. Þær enduðu því í 17. sæti af 20 liðum sem er besti árangur íslensks kvennaliðs í þessu móti. Hingað til hafa íslensku kvennaliðin yfirleitt tapað öllum leikjum sínum.

-sá/sa