Selfyssingar standa í ströngu í Danmörku

Handbolti - EM U20
Handbolti - EM U20

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri stendur þessa dagana í ströngu í Danmörku þar sem það tekur þátt í Evrópumótinu í handbolta. Með í för eru Selfyssingarnir Elvar Örn Jónsson, Grétar Ari Guðjónsson og Ómar Ingi Magnússon. Sjúkraþjálfari liðsins er Selfyssingurinn Jón Birgir Guðmundsson sem sér til þess að allir verði heilir meðan mótið fer fram.

Liðið komst örugglega í milliriðil eftir sigur á Rússum og Slóvenum og svekkjandi jafntefli gegn Spánverjum sem jöfnuðu metin úr vítakasti eftir að leiktíminn rann út. Ísland endaði í öðru sæti riðilsins með jafn mörg stig og Spánverjar en lakari markatölu. Í milliriðli mætir liðið Pólverjum í dag, þriðjudag og Frökkum á morgun, miðvikudag.

Tvö efstu liðin í milliriðli komast í undanúrslit en liðin í þriðja og fjórða sæti spila um 5.-8. sæti á mótinu. Fara leikirnir fram föstudag 5. ágúst og sunnudag 7. ágúst.

---

Landsliðshópurinn við hótelið í Kolding í Danmörku.
Ljósmynd af vef HSÍ