Skin og skúrir á aðventunni

Sigur á ÍR 07.12.2019 í Olísdeildinni
Sigur á ÍR 07.12.2019 í Olísdeildinni

Báðir meistaraflokkar Selfoss áttu leiki í gær.  Strákarnir sigruðu Olísdeildarslag við ÍR í Austurbergi, 29-31.  Í Grill 66 deildinni töpuðu stelpurnar fyrir Fram U í Safamýrinni, 26-21.

Leikurinn í Breiðholti var frekar jafn framan af og það var ekki fyrr en á 20. mínútu sem ÍR náði þriggja marka forystu, 13-10.  Strákarnir bættu í  og jöfnuðu leikinn fyrir hálfleik, staðan í hálfleik 16-15.  ÍR hélt naumu forskoti þar til Selfyssingar náðu að loka vörninni á 45. mínútu og breyttu stöðunni úr 25-24 í 25-29.  Bjarni Fritzson þjálfari ÍR tók tvö leikhlé á þessum kafla og ákvað að taka Hauk úr umferð.  Við það riðlaðist sóknarleikur Selfyssinga nokkuð, en þeir náðu þó áttum aftur og sigldu góðum sigri heim.  Daníel Karl innsiglaði tveggja marka sigur Íslandsmeistaranna þegar lítið var eftir af leiknum, 29-31.

Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 9/5, Haukur Þrastarson 8, Atli Ævar Ingólfsson 4, Magnús Öder Einarsson 3, Reynir Freyr Sveinsson 2, Daníel Karl Gunnarsson 2, Ísak Gústafsson 1, Guðjón Baldur Ómarsson 1, Einar Baldvin Baldvinsson 1.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 5 (30%) og Sölvi Ólafsson 4 (21%).

Nánar er fjallað um leikinn á Vísir.is og Sunnlenska.is.

Í Safamýrinni fóru stelpurnar vel af stað og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins.  Fram skoraði næstu 5 mörk og virtust ekki ætla að sleppa þeirri forustu aftur.  Þær byggðu ofan á þetta í rólegheitunum og náðu mest 5 marka forystu undir lok fyrri hálfleiks, 13-8.  Selfyssingar náðu góðum lokakafla og staðan í hálfleik 14-11.  Leikurinn var afar jafn fyrstu mínútur síðari hálfleiks, en í stöðunni 16-16 á 38. mínútu skildu leiðir.  Fram náðu forystunni á ný og sigldu að lokum heim 5 marka sigri, 26-21.  Góður leikur í það heila hjá stelpunum frá Selfossi, en toppliðið var of stór biti.

Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 4, Katla María Magnúsdóttir 4, Agnes Sigurðardóttir 3, Hólmfríður Arna Steinsdóttir 3, Katla Björg Ómarsdóttir 3, Sigríður Lilja Sigurðardóttir 1, Elín Krista Sigurðardóttir 1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1.

Varin skot: Henriette Østergaard 11 (30%)).

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is.

Stelpurnar eru þar með komnar í jólafrí en mæta aftur á handboltavöllinn 12. janúar þegar þær heimsækja Val U.  Strákarnir eiga einn leik eftir sem fram fer í Hleðsluhöllinni sunnudagskvöldið 15. desember gegn Völsurum, jólaleikurinnn í ár.  Fyrir þá allra hörðustu þá á U-liðið leik í Hleðsluhöllinni á föstudagskvöldið gegn Kríu, það er sérstaklega skemmtileg stemning á leikjum Selfoss U og óhætt að mæla með þeirri upplifun.


Strákarnir voru að vonum sáttir að leikslokum.
Umf. Selfoss / ÁÞG