Slæmur dagur hjá 4. flokki

A- og B-liðin í 4. flokki karla mættu toppliðunum í deildunum í gær. Bæði lið þurftu að sætta sig við töp eftir að hafa verið í ágætum möguleika á að ná meiru út úr leikjunum. Of mikið af þýðingarmiklum atriðum klikkuðu í leikjunum til að hægt væri að vinna leiki gegn sterkum liðum.

A-liðið mætti ekki almennilega til leiks gegn Fram. Selfoss leiddi þó 4-3 en mikið vantaði upp á áræðni hjá leikmönnum. Framarar náðu tökum á leiknum og voru yfir 8-10 þegar skammt var til leiksloka. Seinustu fimm mínútur hálfleiksins vinna þeir 1-4 og því 9-14 yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleik reyndu okkar menn loksins af alvöru og börðust fyrir sínu. Framarar skoruðu einungis 5 mörk fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks. Vandamálið var sóknin þar sem leikmenn voru ennþá of ragir. Staðan var 18-19 þegar fimm mínútur voru eftir. Bresta þá nokkur smáatriði sem leiða til tveggja ódýrra marka fyrir Framara sem unnu leikinn að lokum 18-22.

Selfyssingar töpuðu leiknum að miklu leyti á seinustu fimm mínútum fyrri hálfleiks. Í stað þess að fara í hálfleik 1-2 mörkum undir voru þeir fimm mörkum undir og að elta allan leikinn vegna þessa. Þessar fimm mínútur í leiknum hafa afar mikið að segja. Svipaða sögu má segja með síðustu fimm mínútur leiksins sem töpuðust 0-3. Það er nokkuð merkilegt að ef einungis eru skoðaðar fyrstu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik og svo fyrstu 20 í seinni hálfleik þá var Selfoss yfir 17-15 á þeim 40 mínútna kafla. Leikirnir hins vegar vinnast eða tapast á hinum 10 mínútunum og á því að halda skipulagi og aga allan leikinn.

Því miður vantaði alla ákveðni í lið Selfyssinga. Hugsanlega vantaði einnig trú á að leikurinn gæti unnist hjá einhverjum leikmönnum og er þá aldrei von á góðu. Einungis einn leikmaður Selfoss, Ómar Ingi, reyndi að draga vagninn og sækja á markið af útispilurunum þremur og þegar sú er raunin er ekki hægt að vinna handboltaleik gegn toppliði deildarinnar.

B-liðið byrjaði ágætlega gegn Stjörnunni og jafnt á öllum tölum upp í 4-4. Þá gerir Stjarnan fjögur mörk í röð og staðan allt í einu 8-4. Sá kafli átti eftir að reynast þýðingarmikill fyrir Stjörnuna því Selfoss var allan leikinn að reyna að vinna þann mun upp. Staðan í hálfleik var 15-11 fyrir heimamenn.

Selfyssingar minnkuðu muninn niður í eitt mark í síðari hálfleik. Þurfti skyttan Sigþór þá að fara af velli eftir að brotið hafi verið illa á honum og kom ekki inn á fyrr en rétt undir lok leiks. Selfoss komst ekki nær en það og sigraði Stjarnan að lokum með fjórum mörkum.

Sóknarleikur Selfoss í leiknum var líklega það besta sem liðið hefur sýnt í vetur. Liðið fann góðar lausnir gegn framliggjandi vörn og voru margir leikmenn virkir og tilbúnir að taka af skarið. Jafnt frjálst spil sem og leikkerfi genguvel og er jákvætt að í leiknum varð til leikkerfi sem notað verður í framtíðinni. Sigþór og Alexander í skyttunum voru feyki öflugir og gerðu mikið af góðum mörkum. Magnús stjórnaði leik liðsins vel og var Oliver seigur. Þá átti Gísli Frank sinn besta leik til þessa og var mjög ógnandi. Vörn Selfyssinga í leiknum var hins vegar ekki nægilega góð og varð það liðinu að falli.