Stórleikur í handboltanum

Mánudaginn 10. febrúar klukkan 20:00 taka Selfyssingar á móti ÍR í átta liða úrslitum í Coca Cola bikarnum í handbolta.

ÍR-ingar eru núverandi bikarmeistarar en eins og flestir muna þá mættust þessi sömu lið í fjögurra liða úrslitum fyrir ári síðan. Það lið sem vinnur þessa viðureign er komið áfram í undanúrslit en sama fyrirkomulag er á keppninni í ár og var í fyrra þar sem heil helgi er tekin undir svokallaða „Final-four“ helgi. Þá eru undanúrslit og úrslit spiluð sömu helgi. Þetta fyrirkomulag tókst vel í fyrra og skapaðist góð stemming í kringum leikina.

Samkvæmt samtali við stjórnarmann er það von allra sem standa að handboltanum að fólk mæti í íþróttahúsið og styðji strákana enda mikið í húfi fyrir ungt og efnilegt lið Selfoss. Núna vita strákarnir enn betur en í fyrra hvað er í húfi og eru hungraðir í að komast aftur í Höllina.

Rétt er að taka fram að góð stemming er í kringum boltann hjá ÍR og gera má ráð fyrir að þeir fjölmenni austur fyrir fjall og styðji sína menn. Núna er tækifæri til að fylla húsið og skapa brjálaða stemmingu á pöllunum!