Strákarnir í Svíþjóð

Handbolti - 4. fl. kk. Partille
Handbolti - 4. fl. kk. Partille

Strákarnir í 4. flokki fóru í frábæra ferð á Partille-mótið í Svíþjóð í seinustu viku. Þrjú lið frá Selfossi tóku þátt, 28 drengir voru með í för, tveir þjálfarar og þrír farastjórar. Drengirnir stóðu sig frábærlega og voru sjálfum sér og félaginu til mikillar fyrirmyndar.

Selfoss yngri (2002) spiluðu frábærlega. Þeir enduðu í 2. sæti í sínum riðli og fóru í A-úrslit. Við urðum bara betri og betri í hverjum leik, en í lokin kom það í bakið á okkur að vera ekki með varamann. Við vorum orðnir of þreyttir og töpuðum með tveimur mörkum í hörkuleik í 16-liða úrslitum, en hefðum með smá heppni vel getað farið alla leið í úrslitin. Frábær árangur hjá 2002 árganginum.

Selfoss 1 eldri (2001) lentu í mjög erfiðum riðli og enduðu í 3. sæti í riðlinum eftir að hafa tapað fyrir ríkjandi meisturum í þessum árgangi, en það skilaði þeim samt í A-úrslit. Þá hrukku þeir í gang og spiluðu frábærlega í útsláttarkeppninni. Fórnarlömb þeirra í 64-liða úrslitum var Grótta, í 32-liða úrslitum norska liðið Stavanger og þeir unnu svo stórlið Lyon frá Frakklandi í 16-liða úrslitum.

Þegar í fjórðungsúrslit er komið eru bara frábær lið eftir og var leikur okkar gegn sænska liðinu Aranas jafn þegar tíminn var liðinn svo leikurinn fór í gullmark. sem er sérstök regla notuð á Partille. Við byrjuðum með boltann og fengum ágætis færi, en því miður fór boltinn í stöng og út. Við vorum því miður einum manni færri á þessum kafla og því fengu Svíarnir gott færi í næstu sókn, skoruðu og fóru áfram á gullmarki. Mikið svekkelsi í annars frábærum leik.

Aranas fór auðveldlega í gegnum undanúrslit og tapaði í hörkuleik fyrir danska liðinu Skanderborg sem voru einmitt með okkur í riðli. Stórkostlegur árangur engu að síður hjá strákunum okkar.

Selfoss 2 eldri (2001) voru frábærir á mótinu og spiluðu fimm hörkuleiki í riðlinum þar sem þeir enduðu naumlega í 4. sæti og fóru í B-úrslit. Þeir bættu leik sinn jafnt og þétt gegnum alla riðlakeppnina, efldust bæði sem hópur og einstaklingar og mikil barátta og gleði einkenndi liðið. Eitthvað tókst ekki að halda því við þegar í 64-liða úrslitin var komið og lentum við í hörkuleik á móti liði sem fyrirfram var talið lakara. Leikurinn fór einmitt í gullmark og við tveimur mönnum færri á þeim tímapunkti. Selfoss byrjaði með boltann en tapaði honum klaufalega og andstæðingurinn geystist upp og skoraði auðvelt mark en við sátum eftir með sárt ennið.

Selfoss spilaði 24 leiki á þessum fimm dögum sem mótið stóð og fór auk þess í tívolí og vatnagarð og gerði ýmislegt skemmtilegt. Ferðin var frábær í alla staði.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum fyrir sem styrktu strákana fyrir þessari ferð, en þeir náðu klárlega að nýta ferðina í að tengjast vinaböndum sem munu endast að eilífu.

Áfram Selfoss.

Ljósmynd: Umf. Selfoss