Svekkjandi tap á móti ÍR

Einar í andlit
Einar í andlit

Selfyssingar er fallnir úr keppni í Coca Cola bikarnum eftir 23-28 tap gegn ÍR í átta liða úrslitum. Jafnræði var með liðunum fyrstu fimmtán mínúturnar en þá náði ÍR góðum kafla og komst fimm mörkum yfir í stöðunni 9-14. Selfoss minnkaði muninn í þrjú mörk og hélst sá munur nokkurn tíma en í hálfleik var staðan 13-18 fyrir ÍR. Það var ekkert skorað í seinni hálfleik fyrr en sex mínútur voru liðnar en það voru Selfyssingar sem réttu sinn hlut og breyttu stöðunni í 15-18. Þeir áttu góða möguleika á að komast inn í leikinn en nýttu það ekki nógu vel, fóru að missa bolta og ÍR náði góðri forystu 15-21 þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. Selfoss náði að hanga í ÍR og minnka muninn í þrjú mörk en varð að lokum að játa sig sigraða enda erfitt að vinna upp fimm marka mun á móti svo sterku liði. Lokatölur urðu 23-28 fyrir ÍR.

ÍR tók fast á Selfyssingum en þeir fengu líka sjö sinnum að hvíla í tvær mínútur, voru út af í 14 mínútur á meðan Selfoss fékk tvær brottvísanir. Einn leikmaður ÍR fékk að sjá rauða spjaldið í kvöld, fékk þrisvar sinnum tvær mínútur. Síðustu brottvísunina fékk hann fyrir kjaftbrúk eftir að hafa fiskað vítakast fyrir sitt lið undir lok fyrri hálfleiks. Seinni hálfleiknum eyddi hann því í stúkunni með stuðningsmönnum ÍR.

Leikmenn Selfoss voru að vonum svekktir yfir þessu tapi en vildu þakka þeim fjölda áhorfenda sem mættu á pallana. Gríðarlega góð stemming var í húsinu í kvöld og bæði lið vel studd.

Einar Sverrisson, Andri Már og Ómar Ingi voru allir með fimm mörk, Hörður Másson og Magnús Már voru með tvö mörk hvor og Jóhannes Snær, Sverrir Pálsson, Atli Kristinson og Andri Hrafn skoruðu allir eitt mark. Sebastian varði 14 skot og Sverrir Andrésson varði 2 skot.

Nú tekur við næsta verkefni sem er heimaleikur í 1. deildinni, föstudaginn 14. febrúar klukkan 20:00. Þá koma Víkingar í heimsókn en þeir hafa verið á uppleið undanfarið og bættu við sig mannskap í janúar þannig að von er á hörkuleik.