Tap hjá 98-liðinu

98-liðið í 4. fl. karla mætti FH á sunnudaginn. Liðið lék mjög góðan varnarleik í leiknum og fékk fína markvörslu en þrátt fyrir það unnu gestirnir frá Hafnarfirði 17-18. Jafnræði var allan fyrri hálfleikinn og skipust liðin á að hafa forystuna. FH endaði hálfleikinn hins vegar betur og var 8-9 yfir í hálfleik. Í seinni hálfleik gekk sóknarleikurinn afar stirðlega og FH voru 12-17 yfir þegar vel var liðið á seinni hálfleikinn. Okkar menn neituðu hins vegar að gefast upp og börðust allt til enda. Selfoss minnkaði muninn í 17-18 þegar rúmar 10 sekúndur voru eftir en komust ekki nær en það.

Mjög gleðilegt er að sjá hversu mikið liðið hefur náð að taka varnarleikinn í gegn eftir slakan fyrsta leik. Í tveimur síðustu leikjum hefur vörnin verið að skila liðinu mjög góðum tækifærum. Vonandi nær liðið að taka sóknina einnig í gegn en þá verður liðið illviðráðanlegt.