Þrír íslandsmeistaratitlar á Selfoss

IMG_7551_
IMG_7551_

Íslandsmót unglinga í hópfimleikum fór fram í Garðabæ 1.-3.mars 2013.  Alls tóku 52 lið þátt í mótinu frá 10 félögum víðs vegar af landinu.  Fimleikadeild Selfoss sendi 11 lið til keppni í 5 fimm  aldursflokkum.

 

Í fjórða flokki kvenna sem er 9-10 ára flokkurinn hömpuðu Selfyssingar Íslandsmeistaratitlinum eftir mjög svo harða baráttu við lið Skagamanna en Selfossstúlkur hlutu samtals 36.40 stig en lið Skagamanna var fast á hæla þeirra með 36.37 stig.  Gerplustúlkur enduðu í 3.sæti í þeim flokki frekar langt á eftir með 30.20 stig.   Samtals voru 7 lið mætt til keppni í 4. flokki.

 

Í 3.flokki kvenna 11-12 ára tóku þrjú lið frá Selfossi þátt.  A-lið Selfyssinga átti í harðri baráttu við A-lið Gerplu og lið Skagamanna.  Selfossstúlkur áttu dansgólfið og báru þar af með hæstu einkunn 16.47 stig en samanlagt skoraði liðið 40.73 stig og hampaði íslandsmeistaratitli.  Fast á hæla þeirra komu Gerplustúlkur með samtals 39.57 stig og í þriðja sæti varð lið Skagamanna með 37.23 stig.   B og C-lið Selfyssinga sem eru á yngra ári í flokknum stóðu sig líka mjög vel og náði B-liðið 4.sætinu með 33.40 stig og c-liðið hafnaði í 8.sæti með 27.93 stig en alls tóku 11 lið þátt í 3. flokki.  Mjög flottur árangur hjá þessum stúlkum en þær eiga eins og áður segir ár til góða í þessum aldursflokki.

 

Selfyssingar sendu lið til keppni í 3.flokki karla.  Þeir stóðu sig mjög vel á mótinu og eru í mikilli framför en dansinn dró þá aðeins niður.  Þeir voru í harðri keppni við karlalið Hattar frá Egilsstöðum og hafði austanliðið betur og því höfnuðu Selfosspiltar í 2.sæti með 22.70 stig en Hattardrengir sigruðu með 24.70 stig. 

 

Í 2.flokki karla 13-15 ára stóð lið Selfyssinga uppi sem Íslandsmeistari eftir keppni við karlalið Stjörnunnar og karlalið Gerplu.  Selfossdrengir sem voru margir að keppa með ný stökk stóðu sig með glæsibrag og voru efstir á öllum áhöldum en samtals fengu þeir 36.93 stig, karlalið Stjörnunnar varð í 2.sæti með 35.15 stig.  Karlalið Gerplu hafnaði í 3.sæti með 15.45 stig.  Selfossliðið keppti vængbrotið að þessu sinni en í liðið vantaði þeirra reynslubolta Ægi Atlason en hann er nýkominn úr aðgerð á fæti og var á hliðarlínunni í þetta skiptið. 

 

Í 2.flokki kvenna 13-15 ára áttu Selfyssingar tvö lið í keppni.  Lið Selfoss A sem eru mjög ungar og efnilegar stelpur í mikilli framför byrjuðu keppnina á æfingum á trampólíni en það gekk ekki alveg sem skildi og uppskáru þær einkunn langt undir getu.  Þær mættu svo ákveðnari til leiks á gólfið og dýnuna og náðu að krækja sér í 3.sæti sem verður að teljast mjög flottur árangur.  Þær hafa verið í harðri baráttu við lið Gerplu og Stjörnunnar en Gerplustúlkur uppskáru tiltilinn að þessu sinni með 47.90 stig og lið Stjörnunnar varð í 2.sæti með 42.73 stig. Selfossstelpur komu fast á hæla þeirra með 42.00 stig.  Þessar stúlkur spreyta sig næst á Íslandsmóti fullorðina.  Selfoss B sem eru yngra liðið í flokknum stóð sig einnig mjög vel.  Þær náðu til að mynda 4.sæti á gólfi af 11 liðum og enduðu í 7.sæti með samtals 35.43 stig en þær geta vel hækkað einkunn sína á dýnu og verður gaman að fylgjast með þeim á vormótinu á Selfossi í maí.

 

Í opna flokknum sem er flokkur fyrir 15 ára og eldri sendu Selfyssingar tvö lið til þátttöku.  Opni flokkurinn er einfaldari útgáfa af reglum 1. flokks sem er aldursflokkur 15-17 ára.  A-lið Selfyssinga átti í harðri baráttu við lið Stjörnunnar sem var samansett af fyrrverandi meistaraflokksstúlkum og voru mikið eldri en Selfossstúlkur.  Eins mættu Hattarstúlkur sterkar til leiks en úrslit urðu þau að Stjörnustúlkur sigruðu með 42.07 stig, Höttur varð í 2.sæti með 39.23 stig og Selfossstelpur tóku bronsið með samtals 38.20 stig.  B-lið Selfoss sem er yngra liðið stóð sig með ágætum og endaði í 10 sæti með 25.27 stig.  Þær eru ungar og efnilegar og bæta sig með hverju mótinu. 

 

Í 1.flokki sem er flokkur 15-17 ára kepptu einungis þrjú kvennalið.  Ástæðan fyrir því er að liðin treysta sér ekki til að keppa eftir þeim reglum og fara frekar í opna flokkinn. Selfyssingar áttu eitt af þremur liðum í þessum flokki en keppnin um 1.sætið stóð á milli Gerplu og Stjörnunnar.  Lið Selfyssinga hefur átt erfitt uppdráttar sökum meiðsla en keyrði samt sem áður mjög gott mót og sýndu að þær eru í mikilli framför.  Þær hækkuðu sig um fjóra heila frá síðasta móti og margar hverjar voru að keyra ný erfiðari stökk í fyrsta skipti í keppni.  Úrslit urðu að Stjörunustúlkur hömpuðu íslandsmeistaratitilinum og Gerplustúlkur urðu í 2.sæti en þær síðarnefndu gerðu stór mistök í æfingum á trampólíni.  Selfossstúlkur urðu í 3.sæti samanlagt en urðu í 2.sæti í æfingum á trampólíni.

 

Heilt yfir fór mótið mjög vel fram og liðin frá Selfossi stóðu sig mjög vel sem gefur tóninn fyrir framtíðina í fimleikunum.  Enn viljum við þó sjá fjölgun í karlakeppninni en liðunum fer fjölgandi jafnt og þétt.

 

Næsta mót er HSK mót yngri flokka. Þar keppa iðkendur 10 ára og yngri en það fer fram í Hveragerði 16.mars. 

 

Undankeppni Íslandsmeistaramótsins í hópfimleikum fullorðina fer svo fram í Ásgarði 5.apríl næstkomandi en þar munu Selfyssingar eiga nokkur lið í keppni. 

 Keppendur í opnum flokki

 Íslandsmeistarar í 2.flokki karla

 Bronshafar í 1.flokki kvenna

Stelpurnar í 3.flokki 

 

 Íslandsmeistarar í 4.flokki

 

 Krakkarnir í 2.flokki kvenna og karla